Erlent

„Latur anarkisti“ gabbaði Hvíta húsið með gervipóstum

Kjartan Kjartansson skrifar
Jafnvel háttsettir ráðamenn geta orðið fyrir barðinu á svonefndum netveiðum (e. phishing) eins og þeim sem breski hakkarinn beitti.
Jafnvel háttsettir ráðamenn geta orðið fyrir barðinu á svonefndum netveiðum (e. phishing) eins og þeim sem breski hakkarinn beitti. Vísir/Getty
Breskur tölvuhakkari gabbaði háttsetta embættismenn í Hvíta húsinu með því að villa á sér heimildir í tölvupóstum. Fékk hann meðal annars veföryggisráðgjafa forsetans til að senda sér persónulegt tölvupóstfang sitt að fyrra bragði.

Lést tölvuþrjóturinn, sem lýsir sjálfum sér sem „lötum anarkista“ á Twitter, vera Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump forseta, og Reince Prieubus, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, í tölvupóstum sem hann sendi.

Birti hann hluta samskiptanna á Twitter og sagði tilganginn vera þann einan að skemmta sér.

Lofaði heimavarnaráðgjafanum veitingum eins og í Írak

Sem Kushner bauð hann Tom Bossert, heimavarnaráðgjafa Trump sem er yfir netöryggismálum, í teiti, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Tom, við erum að skipuleggja örlitla kvöldskemmtun í lok ágúst. Það væri frábært ef þú kæmist, ég lofa veitingum sem eru að minnsta kosti sambærilegar að gæðum og þær sem við snæddum í Írak. Þetta ætti að vera frábært kvöld,“ skrifaði tölvuþrjóturinn í nafni Kushner.

„Takk, Jared. Með svona loforði get ég ekki hafnað. Ef þú þarft einhvern tímann á því að halda þá er persónulegt tölvupóstfang mitt [...],“ svaraði Bossert og sendi hakkaranum tövlupóstfangið.

Scaramucci vitnaði meðal annars í Óþelló eftir Shakespeare í samskiptum sínum við tölvuhakkarann sem hann taldi vera Reince Priebus.Vísir/AFP
Ögraði Scaramucci sem Priebus

Anthony Scaramucci, sem Trump rak úr starfi samskiptastjóra Hvíta hússins eftir aðeins tíu daga starf í gær, varð einnig fyrir barðinu á hakkaranum.

Þóttist hann vera Reince Priebus sem Scaramucci hafði eldað grátt silfur saman með og sakað um að leka upplýsingum úr Hvíta húsinu. Priebus var látinn fara á föstudag og áttu samskipti hakkarans og Scaramucci sér stað daginn eftir.

Í tölvupósti sakaði „Priebus“ Scaramucci um ótrúlega hræsni og óvirðulegt framferði.

„Þú veist hvað þú gerðir. Við vitum það öll. Jafnvel núna. En vertu viss um að við vorum tilbúin. Sannur karlmaður hefði beðist afsökunar,“ svaraði Scaramucci.

Hvíta húsið taki tölvuöryggi fastari tökum

Hvíta húsið sagði CNN-fréttastöðinni að verið væri að rannsaka göbbin og að þau væru tekin afar alvarlega.

Hakkarinn lofaði í dag að beina spjótum sínum ekki aftur að Hvíta húsinu en hvatti forsvarsmenn þess til þess að taka tövluöryggi fastari tökum héðan í frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×