Erlent

Réttað í máli um fimm hundruð manna í Tyrklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Réttarhöldin fara fram í húsnæði fyrir utan Ankara og var sérstaklega byggt fyrir réttarhöldin.
Réttarhöldin fara fram í húsnæði fyrir utan Ankara og var sérstaklega byggt fyrir réttarhöldin. Vísir/AFP
Réttarhöld í máli nærri fimm hundruð manna hófust í Tyrklandi í dag. Fólkið er grunað um aðild að valdaránstilrauninni síðasta sumar, en í hópi sakborninga eru aðilar sem eru sakaðir um að hafa stýrt valdaránstilrauninni.

Tyrkneska fréttastofan Anatolia segir frá því að fólkið sé sakað um að hafa stýrt valdaránstilrauninni frá Akinci-flugvellinum norðvestur af höfuðborginni Ankara. Er það ákært fyrir morð, morðtilraunar á forsetanum Recep Tayyip Erdogan og brot gegn stjórnarskránni.

Flestir hinna ákærðu – 461 af 486 – eru í haldi lögreglu, sjö eru á flótta, en hinir hafa verið ákærðir en ganga lausir.

Predikarinn Fethullah Gülen er einn þeirra sem hefur verið ákærður en hann hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum síðustu ár. Erdogan sakar Gülen um að vera höfuðpaur valdaránstilraunarinnar.

Réttarhöldin fara fram í húsnæði fyrir utan Ankara og var sérstaklega byggt fyrir réttarhöldin.

Hópur hermanna og fleiri manna reyndi að ná völdum í Tyrklandi í júlí á síðasta ári. Valdaránstilraunin fór hins vegar út um þúfur og létu alls 249 óbreyttir borgarar lífið í óeirðum á götum úti dagana þar í kring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×