Fréttamaður ABC-fréttastofunnar vakti máls á því við Susan Bro, móður Heyer, í viðtali í dag að Trump hygðist setja sig beint í samband við hana vegna fráfalls dóttur hennar um helgina.
„Ertu búin að ræða við hann beint?“ spurði fréttamaðurinn.
„Ég hef ekki gert það og mun nú ekki gera það,“ svaraði Bro.
„Fyrst missti ég af símtölum hans, fyrsta símtalið barst á meðan jarðarförinni stóð. Ég sá ekki einu sinni þau skilaboð og svo voru þrjú örvæntingarfull skilaboð í viðbót frá fjölmiðlafulltrúum yfir daginn og ég vissi ekki af hverju.“
Bro sagðist ekki hafa getað svarað forsetanum vegna anna í kringum jarðarför dóttur sinnar. Hún hafi heldur ekki horft á fréttir fyrr en í gærkvöldi, á fimmtudagskvöld.
„Og ég ætla ekki að tala við forsetann núna, fyrirgefið mér,“ sagði Bro en ummæli hennar má hlusta á hér að neðan.
Q: Have you talked to President Trump directly yet?
— Kyle Griffin (@kylegriffin1) August 18, 2017
Heather Heyer's mom, Susan Bro: "I have not, and now I will not." (via ABC) pic.twitter.com/GKqkC4j5ov
Ástæðuna sagði Bro vera yfirlýsingar Trump á blaðamannafundi sem haldinn var á þriðjudag. Bro sagðist hafa séð myndskeið frá blaðamannafundinum en þar sagði Trump að báðum fylkingum, hvítum þjóðernissinnum og gagnmótmælendum, hefði verið um að kenna í átökunum sem brutust út í Charlottesville um helgina.

Bro hafði áður þakkað forsetanum, óbeint, fyrir yfirlýsingu sína á mánudag. Þar var hann öllu mildari í afstöðu sinni og fordæmdi ofbeldi og kynþáttahatur. Trump lýsti því einnig yfir á mánudag að sérstök rannsókn yrði gerð á morði Heyer. Nú hefur Bro hins vegar þvertekið fyrir að tala við forsetann.
„Þú getur ekki skolað þessu í burtu með því að taka í höndina á mér og segja fyrirgefðu,“ sagði Bro.
Heather Heyer lést í Charlottesville um helgina þegar ökumaður, sem talinn er aðhyllast hugmyndafræði hvítra þjóðernissinna, ók á hóp gagnmótmælenda í bænum. Hún var 32 ára.