Enski boltinn

Ronald Koeman um Gylfa: Við erum ekki að flýta okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Bæði knattspyrnustjóri Swansea City, Paul Clement, og knattspyrnustjóri Everton, Ronald Koeman, tjáðu sig í dag um stöðuna á viðræðum Everton og Swansea um kaup á íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni.

Það er ekki hægt að heyra annað en að það styttist óðum í það að Gylfi verði orðinn leikmaður Everton. Swansea vill fá meiri pening en Everton hefur boðið hingað til að líkur eru á því að félögin geti náð að hittast á miðri leið.

Paul Clement er ekki með Gylfa í hóp Swansea fyrir leikinn á móti Southampton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina og Ronald Koeman segir að félögin séu nálægt því að ná samkomulagi.

„Það munar enn litlu og það hefur ekkert breyst. Ég heyrði einhverjar sögusagnir um að viðræðunum hefði verið slitið en við erum ennþá að tala við Swansea,“ sagði Ronald Koeman á blaðamannafundi í dag.

„Auðvitað vilja allir fá fréttir af þessu máli því það væri bæði betra fyrir okkur og fyrir þá ef við gætum gengið frá þessu sem fyrst. Það er alltaf leikur í gangi á milli kaupanda og seljanda en við erum nálægt því að ná saman. Við skulum vona að það takist að klára þetta sem fyrst,“ sagði Koeman.

„Við erum ekki að flýta okkur en við vonumst eftir að geta náð þessu í gegn,“ sagði Koeman.






Tengdar fréttir

Koeman: Við nálgumst Gylfa

Everton er nálægt því að ganga frá kaupunum á Gylfa Þór Sigurðssyni frá Swansea City. Þetta segir Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×