Lífið

Þúsundir nutu tónlistar Hringadróttinssögu

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Frá tónleikunum í Eldborgarsal Hörpu í gærkvöldi.
Frá tónleikunum í Eldborgarsal Hörpu í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm
Á fimmta þúsund gestir sáu Föruneyti hringsins, fyrstu mynd þríleiks Hringadróttinssögu, undir lifandi tónlist Howard Shore í Eldborgarsal Hörpu um helgina.

„Það kemur sterklega til greina að endurtaka leikinn á næsta ári og þá með Two Towers, segir Guðbjartur Finnbjörnsson, framkvæmdarstjóri Hljómleiks ehf., sem stóð fyrir sýningum á myndinni undir lifandi flutningi óskarðsverðlaunatónlistar myndarinnar. Það var auðvitað alltaf hugmyndin, vitandi af hinum tveimur myndunum því það býður upp á framhald, segir Guðbjartur og bætir við, „þetta gekk upp, það hefur selst upp á allar sýningarnar og ég vona að allir hafi verið glaðir með þessa upplifun.“

Yfir 230 listamenn fylltu svið Eldborgar og fluttu tónlist myndarinnar, sem Shore hlaut óskarðsverðlaun fyrir á sínum tíma, fyrir fullum sal áhorfenda á föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld. Tónlistin var flutt af Sinfóníuhljómsveitinni SinfoNord, kórum Fílharmóníu og Hljómeykis og barnakór Kársnesskóla. Bjartur Clausen og Kaitlyn Lusk sungu einsöng. Herlegheitunum stjórnaði Ludwik Wicki með aðstoð Shih-hung.

„Myndin var sýnd á mjög fínum skjá en nú var verið að færa þessa frábæru óskarsverlaunatónlist fyrir framan myndina og setja hana í aðalhlutverk með myndina sjálfa í aukahlutverki og það skapar alveg nýja vídd í bíó,“ segir Guðbjartur og játar því aðspurður hvort það sé ekki flókið verkefni að setja upp svona verkefni. „Það er stjórnanda hljómsveitarinnar að tryggja að tónlistin sé í fullkomnum takti við atriði myndarinnar,“ segir Guðbjartur og nefnir sérstaklega hin flóknu bardagaatriði sem dæmi þar sem tónlistin þarf að fanga hvert einasta kjaftshögg og sverðaþyt á hárréttu augnabliki.

Föruneyti hringsins hlaut fern Óskarsverðlaun árið 2002, þar á meðal fyrir tónlist Howard Shore. Auk óskarsverðlauna hefur Shore hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir tónlist sína í þríleik Hringadróttinssögu og annarra kvikmynda.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×