Enski boltinn

Pabbi Gylfa um markið í gær: Maður getur búist við hverju sem er frá honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Sigurður Aðalsteinsson, faðir Gylfa Þórs Sigurðssonar, var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann talaði um soninn og sérstaklega markið hans ótrúlega í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

„Ég sá þetta en ég er svo sem hættur að kippa mér upp við þetta. Maður getur búist við hverju sem er frá honum,“ sagði Sigurður í léttum tón í upphafi spjallsins við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason.

En er ekki ljóst að Gylfi ætlaði sér að skora af þessu væri?

„Við höfum oft rætt þessa stöðu þegar markmenn standa framarlega. Ef þeir standa framarlega þá kíkir hann á það. Hann hefur skorað mörk langt fyrir utan teig áður. Ég man sérstaklega eftir einu marki þegar hann var í Reading á móti WBA,“ sagði Sigurður.

„Þá skoraði hann sigurmarkið í framlengingu en það var svona bogabolti yfir markvörðinn en ekki svona langt frá reyndar,“ sagði Sigurður.

Gylfi var hógvær í viðtali á Everton-síðunni eftir leikinn en hefur hann alltaf verið þannig.

„Hann hefur alltaf verið svona og maður þarf alltaf að toga allt upp úr honum. Hann er ekkert feiminn en hægur og hógvær og hefur það sennilega frá mömmu sinni,“ sagði Sigurður.

Gylfi var keyptur á dögunum fyrir meira en 40 milljónir punda og er nú kominn í stærri klúbb þar sem er meira tekið eftir honum.

„Þetta stendur svolítið og fellur hvort menn hafi meðbyr eða ekki. Ég held að hann sé alveg andlega undir þetta búinn,“ sagði Sigurður.

 

„Hann fór þarna í Tottenham og alltaf verið að tala um að hann hafi spilað undir væntingum þar. Miðað við þann spilatíma sem hann fékk þar þá var hann alveg með sömu tölfræðina og hjá öðrum klúbbum,“ sagði Sigurður.

Það má sjá allt spjallið við Sigurð í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×