Innlent

Fær tíma til að jafna sig áður en lögregla ræðir við hann

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ótrúlegt þykir hversu vel gekk að bjarga manninum úr ánni.
Ótrúlegt þykir hversu vel gekk að bjarga manninum úr ánni. Vísir/MHH
Lögreglan á Suðurlandi reiknar ekki með að ræða við manninn sem fór í Ölfusá á miðvikudaginn fyrr en eftir helgi. Honum verður gefið ráðrúm til þess að jafna sig áður en hann verður yfirheyrður.

Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við Vísi. Maðurinn ók bíl á brúarhandrið Ölfusárbrúar og stökk þaðan út í ána síðastliðið miðvikudagskvöld. Talið er að hann hafi verið í ánni fimmtán til tuttugu mínútur áður en björgunarmenn náðu honum á land. Þá hafði hann borist um einn og hálfan kílómetra með straumnum. Talið er að hann hafi verið nokkrar mínútur í kafi en líðan hans er eftir atvikum.

Hann var meðvitundarlaus þegar björgunarmenn náðu honum á land og þurfti að beita endurlífgunartilraunum. Maðurinn andaði sjálfur þegar farið var með hann um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann á bráðamóttökuna í Fossvogi.

Ljóst þykir að björgunarsveitarfólk hafi unnið björgunarafrek með því að ná manninum upp úr ánni. Meðlimir Björgunarfélags Árborgar voru að funda í húsakynnum björgunarfélagsins við Árveg, sem er við Ölfusá, og voru því snöggir til þegar tilkynningin barst. Húsið er 600-700 metra austan af brúnni.

Fjölmörg vitni urðu af atvikinu hafa gefið sig fram við lögreglu og segir Oddur að verið sé að vinna í því að hafa samband við þau öll.


Tengdar fréttir

„Þetta var mögnuð björgun“

Maðurinn sem stökk út í Ölfusá barst með ánni í um 15 til 20 mínútur áður en honum var bjargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×