Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Albanía 2-3 | Slæm byrjun á undankeppninni | Sjáðu mörkin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það blæs ekki byrlega fyrir u-21 landslið karla í knattspyrnu í upphafi undankeppni fyrir Evrópumótið í Ítalíu 2019. Liðið tapaði fyrir Albaníu í Víkinni í kvöld eftir að hafa náð forustunni undir lok fyrri hálfleiks.

Margir biðu spenntir eftir leiknum og ekki síst eftir að fá tækifæri til að sjá Albert Guðmundsson, leikmann PSV, spila á Íslandi. Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins stillti upp í 4-4-2 með Albert í frjálsu hlutverki.

Albert var í aðalhlutverki í leik Íslands en hættulegustu færi Íslands komu annars vegar þegar Albert Guðmundsson fékk pláss á miðjunni eða þegar liði Íslands tókst að opna fyrir Tryggva Hrafn Haraldsson á vinstri kantinum. 

 

 

 

Það var hart tekist á í leiknum.Vísir/Anton

Sætt og súrt undir lok fyrri hálfleiks

Albert var potturinn og pannan í spili íslenska liðsins fram á við og bjó til dauðafæri strax á 14. mínútu fyrir heimamanninn Óttar Magnús Karlsson með yndislegri vippu yfir flata vörn Albana. Óttar var réttstæður en náði ekki að koma boltanum fyrir sig í ákjósanlegu færi.

Tryggvi Hrafn var að sama skapi oft á tíðum með mikið pláss á vinstri kantinum. Besta færi hans leit dagsins ljós þegar laglegt þríhyrningsspil hans og Alberts galopnaði vörn Albaníu vinstra megin. Var hann kominn djúpt inn í teig Albana áður en gestirnir náðu að stoppa sóknina.

Albanir áttu einnig sína spretti en segja má að liðin hafi skipst á að eiga tíu mínútna kafla í einu þar sem pressað var nokkuð stíft.

Besta færi Albana fékk Kristal Abazaj þegar hann slapp í gegn hægra megin en flestar sóknir Albana komu þaðan. Boltinn datt vel fyrir Abazaj sem lét fast skot vaða en beint á Sindra Ólafsson í markinu.

Strákarnir okkar virtust ætla að enda fyrri hálfleikinn á hápunkti þegar Albert Guðmundsson fiskaði horn á 45. mínútu. Eftir mikinn darraðardans í teignum náði Axel Andreasson einhvern veginn að mola boltanum yfir línuna og allt leit út fyrir að Ísland gæti farið með bros á vör inn í hálfleikinn.

Axel virtist enn vera í skýjunum eftir að hafa skorað markið og missti af háum bolta Albana inn fyrir vörnina. Þar var Abazaj mættur í svipaðri stöðu og í fyrra færi sínu. Í þetta sinn gerði hann allt rétt og kom boltanum fram hjá Sindra í markinu. Svekkjandi fyrir strákana að fá þetta mark á sig örfáum sekúndum eftir að hafa komist yfir.

Strákarnir fagna fyrsta marki leiksins.Vísir/Anton

Föstu leikatriðin skiluðu sínu

Velta má því fyrir sér hvort að jöfnunarmark Albana hafi verið eins og blaut tuska í andlitið á strákunum eða hvort að úrhellið sem hófst í upphafi seinni hálfleiks hafi haft áhrif á spilamennsku landsliðsins í upphafi seinni hálfleiks.

Liðinu gekk illa að spila saman og byggja upp sóknir og Albanir gengu á lagið. Aftur var pláss hægra megin fyrir gestina og aftur var það Abazaj sem skoraði. Hann var einn á auðum sjó eftir stungusendingu og skoraði svipað mark og það fyrra.

Þetta virtist vekja íslensku strákana sem náðu að koma sér aftur inn í leikinn. Á þessum tímapunkti spilaði Albert nánast eins og miðjumaður en það var hann sem lagði upp jöfnunarmark Íslands. Strákarnir fengu aukaspyrnu á góðum stað og útfærslan var afar snyrtileg.

Tryggvi Hrafn þóttist ýta við boltanum sem ruglaði varnarlínu Albana. Albert kom aðvífandi og setti boltann á fjærstöng. Þar var Viktor Karl Einarsson einn og skallaði hann boltann í fallegum boga í markið á 70. mínútu.

Aftur varð þó vart við einbeitingarleysi í kjölfar marksins og enn og aftur lukkaðist það vel hjá gestunum að sækja upp hægra megin. Aðeins fjórum mínútu eftir jöfnunarmark Íslands var Florin Durmishaj búinn að setja boltann í netið úr teignum, eftir laglegan undirbúning.

Íslendingar reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en Albanir stóðust áhlaupið. Með sigrinum eru þeir með fjögur stig í 2. sæti riðilsins eftir þrjá leiki. Þetta var hins vegar fyrsti leikur Íslands í riðlinum og því nóg eftir.

Athygli vekur þó að Ísland spilar fimm útileiki í röð áður en liðið spilar næst á Íslandi í undankeppninni, í september á næsta ári.

Eyjólfur vildi sjá betri varnarleik hjá íslenska liðinu.mynd/ksí/hilmar þór

Eyjólfur: „Við vorum alltaf stilltir inn á vellinum“

 „ Við gerum of mörg mistök og varnarleikurinn var ekki nógu góður hjá okkur,“ segir Eyjólfur Sverrison, þjálfari u-21 landsliðsins eftir tapið gegn Albaníu. Honum fannst gestirnir leggja sig meira fram og vill sjá meira frá sínu liði.

„Það er mest svekkjandi í þessu að vinnuframlagið var meira frá andstæðingunum og það sættum við okkur aldrei við. Við þurfum að skoða þetta betur og reyna að bæta okkar leik,“ sagði Eyjólfur.

Albanir nýttu sér það óspart að íslenska liðið var í basli með hægri væn gestanna og komu öll þrjú mörk þeirra þaðan. Eyjólfur segir ljóst að það sé eitthvað sem þurfi að skoða betur í framhaldinu.

„Við vitum það að sóknarlega erum við í fínum málum en varnarlega höfum við verið svolítið í vandræðum. Við vorum ekki nógu nálægt og við þurfum að vera að grimmari. Við vorum alltaf stilltir inn á vellinum,“ segir Eyjólfur.

Fram undan eru fimm útileikir í röð en íslenska liðið klárar alla útileiki sína áður en haldið er aftur heim til Íslands. Þrátt fyrir tap í fyrsta leik segir Eyjólfur að nóg sé eftir en nú þurfi að laga það sem amaði að í dag.

„Við ætluðum okkur stóra hluti í þessari keppni en þetta var fyrsti leikurinn og nú þurfum við að bæta okkar leik. Við eigum eftir að fara vel yfir þennan leik og sjá hvort við getum ekki stoppað í mistökin sem við erum að gera.“ 

Albert var öflugur í kvöld.Vísir/Anton

Albert: Vantaði kannski mann í boxið eða betri sendingar

 Albert Guðmundsson, fyrirliði landsliðsins og leikmaður PSV var besti maður vallarins hjá íslenska landsliðinu í kvöld. Hann var í framlínu liðsins en fékk að mörgu leyti frjálst hlutverk í leiknum. Hann segir að jöfnunarmark Albana hafi verið afar svekkjandi.

„Þetta var helvíti fúlt. Við tókum það samt fram að við ætluðum ekkert að vera að hugsa um það. Við töluðum um að nýta okkur þetta sem jákvæðan punkt, til þess að halda okkur á tánum og vilja fá sigurinn enn þá meira en því miður tókst það ekki,“ segir Albert.

Albert lagði upp seinna mark Íslands með afar vel útfærðri aukaspyrnu sem æfð var vel í gær fyrir leikinn. Hann hrósar liðsfélögum sínum fyrir að hafa útfært þetta svona vel.

„Ég er virkilega ánægður með að við náðum að útfæra þetta svona vel. Ég vil hrósa strákunum líka, við teiknuðum þetta upp sjálfir,“ segir Albert sem hrósaði líka þjálfurunum fyrir fyrra markið sem kom eftir horn eftir uppskrift þjálfaranna.

Albert segir að vantað hafi herslumuninn í leiknum og að með smá heppni hefði leikurinn fallið Íslands megin.

„Við náum ágætis stöðum á vellinum en þá vantaði örlitla, kannski einn mann örlítið meira í boxinu eða sendingin kannski örlítið betri. Það  er fullt af hlutum sem við þurfum að laga en fullt af hlutum sem við getum verið ánægðir með,“ segir Albert.

Albert var sem fyrr segir í frjálsu hlutverki og var oftar en ekki kominn á miðjuna til að stýra spilinu og finna pláss. Hann var einnig mættur í vörnina á 93. mínútu og kom í veg fyrir hættulegt færi hjá gestunum.

„Mér fannst í þessum leik að það væru svæði fyrir mig að detta í og ég ákvað að notfæra mér það bara og fannst það ágætlega ganga upp,“ segir Albert.

En fær hann að gera þetta hjá PSV?

„Nei, þar er ég bara að fá boltann í lappir fram á við.“

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Víkingsvelli í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

vísir/anton

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira