Innlent

Starfsmenn United Silicon mæta áfram í vinnuna

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Forsvarsmenn United Silicon hafa ekki áformað að segja upp starfsfólki eftir að Umhverfisstofnun stöðvaði reksturinn í gærkvöldi. Ákvörðun stofnunarinnar var tilkynnt með bréfi þar sem rakin eru í átta liðum margþætt frávik frá eðlilegum rekstri verksmiðjunnar auk þess sem ítrekað er að yfir þúsund kvartanir hafi borist frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar.

Umhverfisstofnun tilkynnti fyrst um áformaða stöðvun með bréfi þann 23. ágúst, þar sem fram kom að reksturinn skyldi stöðvaður ekki síðar en 10. september en þó fyrr ef ofn verksmiðjunnar stöðvaðist í klukkustund eða meira, eða færi niður fyrir tiltekið lágmark.

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar sagði í samtali við fréttastofu í dag að boltinn væri nú hjá United Silicon, enda væri það þeirra að bregðast við ákvörðuninni og gera nauðsynlegar úrbætur.

Vildu ekki viðtal en halda áfram rekstri

Forsvarsmenn United Silicon neituðu að veita Fréttastofu viðtal vegna málsins. Kristleifur Andrésson, umhverfis- og öryggisstjóri fyrirtækisins, sagði þó að rekstrinum yrði haldið áfram venju samkvæmt. Þannig myndu allir 85 starfsmenn verksmiðjunnar halda áfram að mæta til starfa og myndu þeir m.a. vinna að þeim úrbótum sem Umhverfisstofnun hefur krafist.

Sagði hann enn fremur að ekki væri verið að stöðva starfsemina í heild sinni, enda kveði bréf stofnunarinnar einvörðungu á um að óheimilt sé að endurræsa ofn verksmiðjunnar, fyrr en að undangengnum úrbótum.

Það liggur því ekki fyrir hvort og þá hvenær starfsemi kísilverksmiðjunnar verður fram haldið. Ljóst er þó að af því verður ekki fyrr en brugðist hefur verið við athugasemdum Umhverfisstofnunar, en engin tímamörk eru sett um hvenær þeim úrbótum skuli vera lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×