Innlent

Hafa stöðvað 199 sendingar af melatonin

Samúel Karl Ólason skrifar
Þær sendingar sem eru stöðvaðar eru sendar til Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
Þær sendingar sem eru stöðvaðar eru sendar til Sorpeyðingarstöð Suðurnesja. Tollstjóri
Tollverðir hafa stöðvað 199 sendingar sem innihéldu svefnlyfið melatonin í tollpósti á þessu ári. Í tilkynningu frá Tollstjóra segir að 88 slíkar sendingar hafi borist á tímabilinu júní til ágúst og hafa langflestar sendingar borist frá netverslunum í Bandaríkjunum.

Hér á landi er melatonin skilgreint sem lyf á Íslandi og fellur það og fæðubótarefni sem innihalda það, undir lyfjalög. Innflutningur efnisins er bannaður. Matvælastofnun hefur varað við kaupum á fæðubótarefnum á internetinu



„Tollstjóri minnir jafnframt á alþjóðlega aðgerð sem gerð var um mitt ár 2016 á vegum INTERPOL með þátttöku íslensku tollgæslunnar. Lyfjastofnunar og aðkomu Europol, Matvælastofnunar o.fl. Í aðgerðinni var lagt hald á 12. 2 milljónir eininga af ólöglegum og mögulega lífshættulegum lyfjum og 4.932 vefsíðum sem buðu upp á slíkan varning lokað. Markmið aðgerðarinnar var að vernda heilsu og öryggi almennings gegn ólöglegri framleiðslu og jafnframt að stöðva slíka framleiðslu.

Alþjóðlegar aðgerðir af þessu tagi hafa staðfest að glæpamenn svífast einskis þegar kemur að vörusvikum við framleiðslu og engin tegund varnings er undanskilin, þar með talin lyf og fæðubótarefni að því er fram hefur komið hjá INTERPOL og Europol,“ segir í tilkynningu Tollstjórans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×