„Heilt yfir þá er í mínum huga ekkert nýtt í þessu. Það eru jú einhverjar fjárhæðir og dagsetningar en ekkert sem breytir þeirri staðreynd að samskipti mín við bankann þau voru bara eðlileg,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við Heimi Má Pétursson, fréttamann stöðvar 2, eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Aðspurður um fund sem Bjarni sat þann 28. September 2008 með stjórnarformanni Glitnis, segir Bjarni að þar hafi hann ekki fundið neinar upplýsingar sem hafi nýst honum í viðskiptum sínum.
„Þegar ég óska eftir því að bréf séu seld úr sjóði 9 og færð yfir í sjóði 7 og 5 í bankanum - allt áfram geymt í bankanum - þá liggur fyrir að ríkið hugðist taka 75% stöðu í bankanum. Öllum íslendingum var ljóst að það var eitthvað mjög alvarlegt að gerast í bankakerfinu og ég bjó ekki yfir neinum trúnaðarupplýsingum. Hvorki höfðu þær komið fram á þessum fundi né hafði ég fengið þær eftir neinum öðrum leiðum.“
Ekki einn í slíkum viðskiptum
Hann segir að hlutabréf á Íslandi hafi verið í frjálsu falli á þeim tíma sem öll hans viðskipti áttu sér stað.
„Það voru hundruðir ef ekki þúsundir viðskiptavina bankanna væntanlega sem voru að gera þetta og í örðum bönkum á sama tíma. Það var ástand á fjármálamarkaðnum á þessum tíma og það er það sem markar hegðun manna.“
Finnst þér tímasetningin á þessum upplýsingum skipta máli?
„Þessi erlendi blaðamaður sem hafði samband við mig sagði að þeir hefðu legið á þessum upplýsingum í margar vikur. Já, mér finnst tímasetning merkileg og ég bara þori að fullyrða að það tengist kosningunum sem eru framundan.“
Alvarlegar ásakanir
Bjarni sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins fyrr í dag. Þar segir hann að öll sín viðskipti við Glitni hafi verið eðlileg og ða þau hafi staðist ítrekaða skoðun. Það sé aðalatriðið í málinu að hans mati.
„Eins og áður hefur komið fram seldi ég hlutabréf mín í Glitni árið 2008. Söluandvirðið var geymt áfram í bankanum, fyrst og fremst í Sjóði 9. Ég seldi smám saman þá eign yfir árið og færði að hluta í aðra sjóði og á innlánsreikninga hjá bankanum.
Látið er að því liggja í fréttum í dag að ég hafi búið yfir trúnaðarupplýsingum um stöðu fjármálakerfisins, eða Glitnis, annars vegar þegar ég seldi hlutabréfin, og hins vegar þegar ég seldi eftirstöðvar eignar minnar í Sjóði 9 dagana fyrir fall bankans.
Þetta eru alvarlegar ásakanir. Hér er verið dylgja um að ég hafi misnotað stöðu mína og stundað innherjasvik. Hvort tveggja er rangt,“ segir Bjarni í færslu sinni á Facebook.
Ekkert bendi til þess að lög hafi verið brotin
Ítarleg umfjöllun um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og viðskipti hans með hlutabréf í Glitni og eignir í fjárfestingasjóðnum Sjóði 9 birtist á vef breska blaðsins The Guardian í morgun.
Umfjöllun blaðsins er unnin í samvinnu við Stundina og Reykjavík Media en Stundin greindi frá því í morgun að Bjarni hefði selt alls um 50 milljónir króna úr Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett.
Jon Henley, blaðamaður Guardian, hefur séð skjölin sem sýna hvernig viðskiptin gengu fyrir sig. Í grein hans segir að ekkert bendi til þess að lög hafi verið brotin og í samtali við blaðið neitar Bjarni því að hafa gert nokkuð rangt.