Erlent

Allt gekk á afturfótunum hjá May á þingi Íhaldsflokksins

Kjartan Kjartansson skrifar
May fékk hóstakast sem truflaði ræðu hennar í nokkra stund.
May fékk hóstakast sem truflaði ræðu hennar í nokkra stund. Vísir/AFP
Lánið lék ekki við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins, þegar hún ávarpaði þing flokksins í dag. Ekki var nóg með að hún fengi ákaft hóstakast og hrekkjalómur truflaði ræðu hennar heldur byrjaði hluti af sviðsmyndinni að detta í sundur á meðan hún talaði.

Ræða May á flokksþinginu átti að vera vettvangur fyrir hana til að ná vopnum sínum eftir undirróðursstarfsemi nokkurra flokksbræðra hennar gegn formennsku hennar að undanförnu, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

Þess í stóð fór hér um bil allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis á meðan May var í pontu.

Fékk uppsagnarbréf sem var sagt frá Boris Johnson

Fyrst truflaði þekktur hrekkjalómur ræðu May með því að afhenda henni uppsagnarbréf sem hann sagði að Boris Johnson, utanríkisráðherrann, hefði beðið sig um að skila til hennar. Johnson var sakaður um að grafa undan May með grein sem hann ritaði um Brexit í Daily Telepgraph í síðasta mánuði.

Eftir að hrekkjalómurinn var horfinn á braut brást May röddin og fékk hún langt hóstakast. Endaði það með að Philip Hammond, fjármálaráðherra, hennar fékk henni hálsbrjóstsykur.

Undir lokin byrjuðu svo stafir úr áletrun á veggnum fyrir aftan ræðupúltið að detta af. Þar hafði staðið „Byggjum land sem virkar fyrir alla“ [e. Building a Country that works for Everyone]. Áður en yfir lauk höfðu bókstafirnir F og E dottið í gólfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×