Innlent

Fötluð stúlka ekki fengið umönnun við hæfi í meira en sex ár

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður landssamatakanna Þroskahjálpar.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður landssamatakanna Þroskahjálpar. VÍSIR/HANNA
Fötluð 24 ára stúlka, sem þarfnast umönnunar allan sólarhringinn, og foreldrar hennar hafa stefnt Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu fyrir að synja stúlkunni um húsnæðisúrræði og fullnægjandi umönnun. Í rúm sex ár hafa foreldrarnir þurft að annast stúlkuna vegna þessa. Aðalmeðferð í málinu fór fram í síðustu viku. Formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar segir að um prófmál sé að ræða.

Stúlkan hefur alla sína ævi þurft mikla aðstoð. Í stefnu málsins segir að eftir að hún varð átján ára hafi Reykjavíkurborg neitað að veita henni nauðsynlega þjónustu. Umönnun hennar hafi því lent á foreldrunum. Hefur móðir hennar af þessum sökum þurft að hætta á vinnumarkaði.

„Okkur finnst þetta mál vera ákveðinn prófsteinn á það hvort það sé í raun svo að ábyrgð á þjónustu fatlaðra barna falli alfarið úr gildi við átján ára aldur,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

„Ef niðurstaðan er sú að ábyrgðin við umönnun er sett algerlega á foreldra við átján ára aldur þá þarf að breyta lagarammanum,“ segir Bryndís.

Auk viðurkenningar á því að ákvörðun borgarinnar hafi verið ólögmæt krefst stúlkan tíu milljóna króna í miskabætur. Foreldrarnir krefjast skaðabóta, tæpra 30 þúsund króna fyrir hvern dag frá því að stúlkan varð átján ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×