Innlent

Dýrbítur gengur laus á Vatnsleysuströnd

Þórdís Valsdóttir skrifar
Virgill Scheving Einarsson, landeigandi, telur víst að hundur hafi drepið þrjár kindur og sé valdur því að ein hafi horfið.
Virgill Scheving Einarsson, landeigandi, telur víst að hundur hafi drepið þrjár kindur og sé valdur því að ein hafi horfið. Vísir/GVA
Þrjár kindur hafa verið drepnar og sú fjórða er týnd á bænum Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd.

Virgill Scheving Einarsson, landeigandi, telur víst að hundur eða hundar hafi étið kindurnar.

„Það er búið að drepa þrjár kindur hjá okkur og ein hefur hreinlega gufað upp,“ segir Virgill.

Síðdegis á laugardag var Virgill staddur inni á heimili sínu og fylgist með kindunum út um gluggann. „Þær voru hér fyrir utan að bíta gras og svo áður en ég veit af var svartur hundur að tætast í fénu, stór innfluttur hundur.“

Virgill sá hvernig hundurinn elti kindurnar eftir túninu. „Hrúturinn sem var tveggja ára hann springur og liggur á túninu. Ég fer að honum og hann er þá lifandi en um hálftíma seinna var hann steindauður, þindin sprakk í honum,“ segir Virgill og bætir við að dýr sem þessi þoli ekki að hlaupa svona með urrandi hund á eftir sér.

Virgill segir að mikill fjöldi hunda séu á svæðinu þar sem hann býr. „Þessir hundar eru fleiri en íbúarnir á strjálbýlinu eins og ég kalla það, en mig grunar að þeir séu ekki skráðir.“

Virgill er með um 60 kindur á lóð sinni, en sonur hans, Kristmundur er eigandi fjárins. „Við höfum ræktað upp stofn hérna og það er voðalega sárt að tapa fé sem búið er að rækta,“ segir Virgill. Hann veit þó ekki hver er eigandi hundsins eða hundanna sem drepið hafa féð.

Virgill íhugar að setja upp hreyfimyndavélar á lóð sinni til þess að góma dýrbítinn. „Það væri þá myndavél sem smellir af þegar hundurinn stekkur fyrir geislann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×