Erlent

Yfirmenn lögreglu og leyniþjónustu reknir vegna árása

Samúel Karl Ólason skrifar
Í dag tókst öryggissveitum að binda enda á umsátur á hóteli í Mogadishu þar sem 23 létu lífið.
Í dag tókst öryggissveitum að binda enda á umsátur á hóteli í Mogadishu þar sem 23 létu lífið. Vísir/AFP
Yfirvöld í Sómalíu hafa rekið yfirmenn lögreglu og leyniþjónustu landsins eftir mannskæðar árásir undanfarinna vikna. Í dag tókst öryggissveitum að binda enda á umsátur á hóteli í Mogadishu þar sem 23 létu lífið. Fyrir tveimur vikum dóu 358 manns í gríðarstórri sprengingu á fjölförnum gatnamótum.

Árásirnar hafa dregið úr trausti borgara á yfirvöld og getu þeirra til að verja höfuðborgina gegn árásum vígamanna og þá sérstaklega vígamanna al-Shabab hryðjuverkasamtakanna, sem hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni um helgina.

Árásin hófst þegar sendiferðabíll var sprengdur fyrir utan Nasa-Hablod hótelið og réðust vígamenn, vopnaðir árásarrifflum, handsprengjum og sprengjuvestum, til atlögu í kjölfar sprengingarinnar. Þrír vígamenn voru felldir í dag og tveir handsamaðir, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.



Umrætt hótel er vinsælt meðal yfirmanna hersins og háttsettra stjórnmálamanna. Alim Aliyow, ráðherra rafmagns og vatns, var bjargað af hótelinu í bardögum í dag.

Yfirmaður í hernum segir að meðal þeirra sem dóu hafi verið móðir og þrjú börn. Öll hafi þau verið skotin í höfuðið. Þar að auki voru háttsettur meðlimur lögreglunnar, fyrrverandi þingmaður og fyrrverandi ráðherra myrtir.

Þrátt fyrir að al-Shabab hafi lýst yfir ábyrgð á árásinni um helgina segjast samtökin ekki hafa gert árásina fyrir tveimur vikum.

Sjá einnig: Tala látinna í Mogadishu í 358



AP segir sérfræðinga telja að samtökin hafi ekki viljað lýsa yfir ábyrgð vegna þess hve margir almennir borgarar létu lífið. Þá var sendiferðabíll hlaðinn um 600 til 800 kílóum sprengdur í loft upp við hlið olíuflutningabíls. Ekki er víst hvort að gatnamótin hafi verið ætlað skotmark árásarmannanna, en mögulegt þykir að ökumaðurinn hafi sprengt bílinn í loft upp eftir að hermenn skutu á bílinn og sprengdu eitt dekk hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×