Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, lék landsleik númer 340 þegar Ísland tapaði fyrir Svíþjóð, 24-27, í vináttulandsleik í dag.
Guðjón Valur jafnaði þar með landsliðsþjálfarann Geir Sveinsson í 2. sætinu á listanum yfir leikjuhæstu landsliðsmenn Íslands frá upphafi.
Guðjón Valur og Geir eru leikjahæstu útispilararnir í sögu landsliðsins. Leikjahæstur er hins vegar markvörðurinn Guðmundur Hrafnkelsson með 407 landsleiki.
Guðjón Valur lék sinn fyrsta landsleik gegn Ítalíu í desember 1999. Hann hefur því verið í landsliðinu í 18 ár.
Guðjón Valur fór á sitt fyrsta stórmót árið 2000 (EM í Króatíu). Evrópumótið fer einmitt fram í Króatíu á næsta ári en það verður 21. stórmót Guðjóns Vals á ferlinum.
Guðjón Valur skoraði sex mörk í leiknum gegn Svíum í dag og hefur alls skorað 1783 mörk fyrir íslenska landsliðið. Hann er markahæstur í sögu þess.
