Erlent

Katarar samþykkja að koma betur fram við verkamenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðstæðum verkamanna í Katar hefur verið lýst sem þrælahaldi.
Aðstæðum verkamanna í Katar hefur verið lýst sem þrælahaldi. Vísir/AFP
Yfirvöld í Katar hafa samþykkt gera breytingar á starfsumhverfi erlendra verkamanna og að komið verði betur fram við þá. Ríkið hefur lengi verið gagnrýnt fyrir það hvernig komið hefur verið fram við erlenda verkamenn og hefur ástandinu margsinnis verið lýst sem þrælahaldi.

Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í landinu á undanförnum árum og þá að miklu leyti vegna Heimsmeistaramótsins í fótbolta sem haldið verður þar í landi árið 2022. Um ein og hálf til tvær milljónir erlendra verkamanna vinna við þær framkvæmdir og hundruð þeirra hafa dáið á undanförnum árum. Flestir þeirra koma frá Asíu.

Verkamennirnir hafa meðal annars kvartað yfir því að vegabréf þeirra hafi verið tekin af þeim við komuna til Katar og að þeir hafi ekki fengið greidd þau laun sem þeim hafi verið lofað, svo eitthvað sé nefnt.

Sjá einnig: Gríðarlegur fjöldi dauðsfalla vegna byggingar á HM-völlum í Katar



Forsvarsmenn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) ætluðu samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar að funda um ástandið í morgun og ákveða hvort að tilefni væri til að stofnunin, sem er á vegum Sameinuðu þjóðanna, myndi framkvæma opinbera rannsókn á aðstæðum verkamanna í Katar.



Meðal þess sem Katarar ætla að gera er að koma á lágmarkslaunum, ganga þannig frá málum að samningar verkamanna séu á skrá hjá ríkinu svo ekki sé hægt að breyta þeim og að tryggja að vinnuveitendur geti ekki meinað verkamönnum að yfirgefa landið. Þar að auki verði verkamönnum gert auðveldara að kvarta yfir vinnuaðstæðum sínum.

Ekki liggur fyrir hvenær umbótunum verður komið á.

Sérfræðingur sem Guardian ræddi við segir of snemmt að fagna þar sem loforð sem þessi hafi verið gefin og brotin áður. Nauðsynlegt sé að bíða og sjá hvað úr verði. Hvort lögum verði breytt og sjá hvort að umbótum verði í raun komið á.

Hér má sjá heimildarmynd um aðstæður verkamanna í Katar sem Guardian birti árið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×