Erlent

Marilyn Manson rekur bassaleikara sem sakaður hefur verið um nauðgun

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Twiggy Ramirez og Marilyn Manson
Twiggy Ramirez og Marilyn Manson Vísir/Getty
Tónlistarmaðurinn Marilyn Manson hefur vikið bassaleikaranum Twiggy Ramirez frá störfum sem bassaleikari hljómsveitar hans.

Manson tilkynnti þetta á Twitter síðu sinni í dag þar sem hann sagði að annar kæmi í stað Ramirez á tónleikaferðalagi hans. Hann sagðist óska Ramirez alls hins besta.

Jessicka Addams, söngkona hljómsveitarinnar Jack off Jill, sakaði Ramirez um nauðgun í síðustu viku. Hún og Ramirez hófu samband á tíunda áratug síðustu aldar, þegar hún var átján ára gömul. Þegar það hafði staðið yfir í nokkurn tíma fór Ramirez að beita hana ofbeldi. Hún segir frá því hvernig það afbrýðisemi hans hafi leitt til þess að hann sló hana ítrekað.

Hún segir Ramirez hafa heimsótt hana í íbúð vinar þeirra, Pete, þegar Ramirez var í fríi frá tónleikaferð með hljómsveitinni Nine Inch Nails.

„Hann neyddi mig á gólfið með því að taka mig hálstaki. Ég sagði NEI. Ég sagði NEI. Ég sagði það svo hátt að Pete kom í herbergið og dró hann af mér. En þá hafði mér verið nauðgað. Mér var nauðgað af einhverjum sem ég hélt að ég elskaði.“

Hún segist ekki hafa þorað að segja frá þessu opinberlega í mörg ár af ótta við að það myndi hafa áhrif á feril hennar.

Manson sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í síðustu viku þar sem hann sagðist hafa vitað af sambandi þeirra en hafði ekkert vitað um ásakanirnar fyrr en nýlega og sagðist vera hryggur vegna þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×