Erlent

Borgarstjóraefni Radikale dregur sig í hlé eftir ásakanir um spillingu

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Mee Allerslev hefur starfað sem borgarstjóri atvinnu- og innflytjendamála í Kaupmannahöfn frá ársbyrjun 2011.
Anna Mee Allerslev hefur starfað sem borgarstjóri atvinnu- og innflytjendamála í Kaupmannahöfn frá ársbyrjun 2011. Radikale
Anna Mee Allerslev, borgarstjóri atvinnu- og innflytjendamála í Kaupmannahöfn og borgarstjóraefni Radikale Venstre, hefur dregið framboð sitt til baka vegna ásakana um spillingu.

Hinn 33 ára Allerslev greindi frá ákvörðun sinni á Facebook, en sveitarstjórnarkosningar fara fram í Danmörku þann 21. nóvember næstkomandi.

BT birti í morgun frétt af því að Allerslev hafi beðið starfsmann hjá byggingafulltrúa borgarinnar að greiða fyrir máli byggingarfyrirtækis vinar hennar.

Áður hafði komið fram að Allerslev hafi haldið eigin brúðkaupsveislu í sal ráðhússins í Kaupmannahöfn án þess að reiða fram greiðslu fyrir leigu.

Á blaðamannafundi eftir hádegi í dag sagði Allerslev að hún hafi ákveðið að segja skilið við stjórnmálin. Sagðist hún vilja láta af starfi borgarstjóra eins fljótt og auðið er.

Allerslev hefur starfað sem borgarstjóri atvinnu- og innflytjendamála í Kaupmannahöfn frá ársbyrjun 2011. Í Kaupmannahöfn starfa sjö borgarstjórar – einn aðalborgarstjóri og svo sex fagborgarstjórar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×