Fótbolti

Albert Guðmundsson komst í lið vikunnar í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar öðru marka sinna.
Albert Guðmundsson fagnar öðru marka sinna. Mynd/Twittersíða PSV
Albert Guðmundsson er að spila vel þessa dagana í Hollandi. Hann raðar inn mörkum með varaliði PSV í hollensku b-deildinni og er farinn að fá tækifæri með aðalliðinu í hollensku úrvalsdeildinni.

Albert átti mjög flottan leik í síðustu umferð í hollensku b-deildinni og hann hefur í framhaldinu verið valinn í lið umferðarinnar.



Albert skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í 3-2 sigri varaliðs PSV Eindhoven á RKC Waalwijk á föstudagskvöldið. Hann kom síðan inn á sem varamaður með aðalliðinu á sunnudaginn og fiskaði þá vítaspyrnu í 3-0 sigri á Hercales.

Albert Guðmundsson hefur skorað 3 mörk í 3 leikjum í hollensku b-deildinni á þessu tímabili en hann var með 18 mörk í 34 leikjum í deildinni á síðustu leiktíð.



Það er hægt að sjá mörkin og stoðsendingar Albert í myndbandinu hér fyrir neðan þar sem öll mörk umferðarinnar eru sýnd. Mörkin eru sýnd í tímaröð en ekki eftir leikjum.

Það má sjá Albert skora fyrra markið sitt úr vítaspyrnu eftir 17 sekúndur af myndbandinu og seinna markið hans sér þegar 1:30 eru liðnar af myndbandinu. Stoðsendingin hans Albert kemur aftur á móti strax í byrjun myndbandsins eða eftir aðeins sjö sekúndur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×