Erlent

Tusk: Evrópa verður að varðveita menningararf sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, í þingsal Evrópuþingsins í Strasbourg í morgun.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, í þingsal Evrópuþingsins í Strasbourg í morgun. Vísir/AFP
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, segir að Evrópa búi yfir einstökum menningararfi sem nauðsynlegt sé að varðveita. Þetta skuli gert með hertari gæslu á ytri landamærum Evrópusambandsins.

Þetta sagði forsetinn í ræðu í sal Evrópuþingsins í Strasbourg í Frakklandi fyrr í dag. „Við höfum bæði rétt og skyldu til að hlúa að því sem skilur okkur frá annarri menningu – ekki til að snúast gegn einhverjum, heldur til að fá að vera við sjálf,“ sagði Tusk.

Í frétt SVT kemur fram að forseti leiðtogaráðsins hafi lagt áherslu á að með þessu sé hann ekki að segja að Evrópumenn séu æðri öðrum. „Menningin sameinar okkur en hún gerir okkur ekki betri eða verri en aðrir. Við erum bara ólík samanborin við umheiminn,“ sagði Tusk.

Málefni innflytjenda hafa mikið verið í brennidepli í álfunni síðustu árin þar sem stjórnmálamenn hafa margir varað við að evrópskri menningu stafi ógn af auknum straumi innflytjenda. Aðildarríki ESB deila enn um hvernig haga skuli málum þegar kemur að málaflokknum. „Opið samfélag og umburðarlyndi okkar má ekki leiða til þess að við hættum að verja arfleifð okkar,“ sagði Tusk.

Tusk vill meina að nauðsynlegt sé að herða eftirlit á ytri landamærum Evrópu enn frekar þó að hann hafi í ræðu sinni lagði ekki lagt til neinar ákveðnar hugmyndir. „Verkefni okkar er að vernda þá [flóttamenn]. Flóttamannakrísan hefur minnt okkur á þörfina á að koma upp skilvirku eftirliti við ytri landamæri okkar, á meðan órói og herská hegðun í fjölda ríkja í nágrenni okkar hafa minnt okkur á nauðsyn þess að verja landsvæði okkar,“ sagði Tusk í ræðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×