Handbolti

Seinni bylgjan: Þegar neyðin er mest þá er hringt í Elvar Örn Jónsson á Selfossi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson.
Elvar Örn Jónsson. Vísir/Stefán
Tómas Þór Þórðarson og strákarnir í Seinni bylgjunni fóru í gær yfir frábæra framgöngu Elvars Arnar Jónssonar í Selfossliðinu í Olís deild karla.

„Þegar neyðin er mest þá er hringt í Elvar Örn Jónsson á Selfossi,“ hóf Tómas Þór Þórðarson umræðuna um þennan efnilega handboltamann sem hefur nú unnið sér sæti í íslenska A-landsliðinu.

„Það skiptir ekki máli hvort það sé handbolti, þú sért með sprungið dekk eða það þarf að laga hjá þér vaskinn. Það er bara gott að hringja í Elvar Örn Jónsson því hann er með allt á hreinu,“ hélt Tómas áfram.

Elvar Örn Jónsson hefur boðið upp á mjög mikinn stöðugleika í sínum leik sem er gott hjá ekki eldri strák.

„Þetta er bara form sem þú vilt fara með inn í landsleikjapásu. Þegar þú þarft að sanna þig fyrir landsliðsþjálfaranum þá viltu koma í þessu formi og með þetta sjálfstraust. Ég vil líka fá að sjá hann spila án þess að vera að setja pressu á landsliðsþjálfarann því ég á nóg með mitt,“ sagði Dagur Sigurðsson sem var spekingur þáttarins í gær með Sigfúsi Sigurðssyni.

Sigfús benti á það að Elvar Örn væri líka að spila vörnina allar sextíu mínúturnar þar sem hann var að berjast við þyngri og stærri menn. „Hann átti nóg eftir á tanknum þegar á þurfti,“ sagði Sigfús.

Það er hægt að sjá alla tölfræði Elvars og alla umræðu strákanna í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×