Erlent

Óttast að tilraunasprengjufjall Norður-Kóreumanna falli saman

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Kínversk og suður-kóresk yfirvöld óttast að fjall sem Norður-Kóreumenn nýta til tilraunasprenginga með kjarnavopnum kunni að falla saman. Er óttast að geislavirk efni kunni að leka út úr fjallinu og út í umhverfið.

Norður-Kóreumenn hafa framkvæmt sex tilraunasprengingar, þá síðustu í september síðastliðinn. Allar hafa sprengingarnar verið gerðar á sama stað, Punggye-ri, undir fjallinu Mantap í norðausturhluta landsins. Þar hafa sprengjurnar verið fluttar í göngum undir fjallið á um tveggja kílómetra dýpi.

„Undir fjallinu er holrúm sem er milli sextíu og hundrað metra langt. Við næstu sprengingu er hætta á fjallið falli saman,“ segir Nam Jae-cheol, yfirmaður hjá suður-kóresku Veðurstofunni í samtali við fréttastofuna Yonhap.

Jarðfræðingar í Kína hafa varað Norður-Kóreumenn við að framkvæma fleiri tilraunaspreningar í fjallinu. Óttast þeir að fjallið falli saman og að geislavirk efni leiti upp á yfirborðið og yfir landamærin til Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×