Erlent

Ítalskur mafíósi fór fram á að dóttir sín yrði myrt

Atli Ísleifsson skrifar
Giuseppe "Pino“ Scaduto í lögreglufylgd árið 2008.
Giuseppe "Pino“ Scaduto í lögreglufylgd árið 2008. Vísir/EPA
Ítalskur mafíósi á að hafa farið fram á að dóttir sín yrði myrt, sökum þess að hún hafi átt í sambandi við lögreglumann.

Pino Scaduto, yfirmaður Bagheria-mafíunnar á Sikiley, kenndi dóttur sinni og sambandi hennar og háttsetts lögreglumanns um að hann hafi verið handtekinn, dæmdur og þurft að afplána dóm í fangelsi.

Við rannsókn á bréfasendingum Scaduto úr fangelsinu fundu lögreglumenn vísanir í sérstaka „gjöf“ sem hann vildi gefa dóttur sinni.

Guardian greinir frá því að lögregla á Ítalíu segi Scaduto, sem var sleppt úr fangelsi í apríl síðastliðinn, hafa beðið son sinn um að myrða systur sína. „Systir þín er orðin uppljóstrari,“ á Scaduto að hafa sagt við soninn.

Sonurinn, sem hefur verið ákærður fyrir morð í öðru máli, var hins vegar ekki viljugur að fara að skipunum föður síns. „Ég vil ekki gera það. Ef þú vilt gera þetta, þá verður þú að sjá til þess sjálfur. Af hverju á ég að þurfa að fást við þetta vandamál. Ég er þrítugur,“ sagði sonurinn í samtali við föður sinn sem lögregla hleraði.

Scaduto leitaði þá til annars manns til að fá hann til að myrða dótturina, en sá neitaði honum einnig og sagði að um fjölskyldumál vera að ræða sem hann vildi ekki koma nálægt.

„Í dag höfum við handtekið mafíuleiðtoga sem vildi drepa dóttur sína þar sem hún átti í sambandi við háttsettan ítalskan lögreglumann,“ sagði ítalski utanríkisráðherrann Angelino Alfano í gær.

Scaduto var handtekinn ásamt fimmtán öðrum liðsmönnum Bagheria-mafíunnar til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×