Erlent

Tólf tonn af kókaíni grafin á bananaekru

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Forseti Kolumbíu sést hér standa ofan á kókaínhafinu í hvítri skyrtu.
Forseti Kolumbíu sést hér standa ofan á kókaínhafinu í hvítri skyrtu. Vísir/epa
Lögreglan í Kolumbíu lagði hald á 12 tonn af kókaíni á dögunum. Er þetta mesta magn fíkniefna sem lögregla landsins hefur nokkurn tímann haldlagt í einni aðgerð.

Fíkniefnin voru grafin niður á bananaekru í norðurhluta landsins, skammt frá vegslóðum sem nýttir eru til að flytja efnin til Bandaríkjanna. Talið er að kókaínið hafi verið í eigu glæpagengisins Flóaflokkurinn (e. Gulf Gang) og að það hafi verið í umsjá sjálfs foringja samtakanna, Dairo Úsunga.

Lögreglan hefur árum saman reynt að hafa hendur í hári hans en hafði ekki erindi sem erfiði að þessu sinni. Engu að síður hefur hún handtekið fjóra einstaklinga sem taldir eru viðriðnir kókaínfjallið. Alls hafa um 1500 meðlimir Flóaflokksins verið handteknir á þessu ári að sögn breska ríkisútvarpsins.

Virði efnanna á bananaekrunni er talið vera um 40 milljarðar íslenskra króna. Frá því í ágúst hefur kolumbíska lögreglan lagt hald á rúmlega 20 tonn af kókaíni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×