Erlent

Þriðja kynið verður í boði á þýskum fæðingarvottorðum

Atli Ísleifsson skrifar
Talsmaður Þýskalandsstjórnar segir að stjórnvöld muni framfylgja því sem fram komi í dómsorðum.
Talsmaður Þýskalandsstjórnar segir að stjórnvöld muni framfylgja því sem fram komi í dómsorðum. Vísir/AFP
Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe, æðsti dómstóll Þýskalands, hefur úrskurðað að nauðsynlegt sé að bjóða upp á möguleikann á þriðja kyninu, til viðbótar við karlkyns og kvenkyns, þegar skrá skal kyn á fæðingarvottorðum.

Dómstóllinn hefur gefið þýskum stjórnvöldum frest til loka næsta árs til að samþykkja lög sem myndu fela í sér að boðið yrði upp á þriðja möguleikann á fæðingarvottorðum.

Þýskaland verður með þessari breytingu fyrsta ríki Evrópu til að bjóða intersex fólki upp á möguleikann á að skrá sig hvorki sem karl eða kona.

Málið kom til kasta dómstóla í kjölfar stefnu skráðrar konu, sem hafði fengið staðfest í litningaprófi að viðkomandi væri hvorki karl né kona.

Í dómsorðum segir að núverandi fyrirkomulag mismunaði intersex fólki og segir í frétt BBC að nýi flokkurinn kynni að nefnast „inter“ eða „ýmislegt“.

Talsmaður Þýskalandsstjórnar segir að stjórnvöld muni framfylgja því sem fram komi í dómsorðum.

Stjórnvöld í Ástralíu, Indlandi, Nýja Sjálandi, Nepal og Bandaríkjunum hafa þegar tekið upp möguleikann á þriðja kyninu í fæðingarvottorðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×