Erlent

Disney sýnir klærnar: Lögðu bann á L.A. Times vegna umfjöllunar um bílastæðahús

Birgir Olgeirsson skrifar
Forsvarsmenn Disney eru afar ósáttir við umfjöllun L.A. Times vegna umfjöllunar fjölmiðilsins á eftirgjöf sem Disney fær vegna skemmtigarðs fyrirtækisins í Anaheim í Kaliforníu.
Forsvarsmenn Disney eru afar ósáttir við umfjöllun L.A. Times vegna umfjöllunar fjölmiðilsins á eftirgjöf sem Disney fær vegna skemmtigarðs fyrirtækisins í Anaheim í Kaliforníu. Vísir/Getty
Walt Disney-fyrirtækið hefur ákveðið að aflétta banni af bandaríska fjölmiðlum L.A. Times í kjölfar mikilla mótmæla.

Forsvarsmenn Disney eru afar ósáttir við umfjöllun L.A. Times vegna umfjöllunar fjölmiðilsins á eftirgjöf sem Disney fær vegna skemmtigarðs fyrirtækisins í Anaheim í Kaliforníu.

Ákváðu forsvarsmenn Disney í kjölfarið að banna gagnrýnendum L.A. Times að vera viðstadda gagnrýnendasýningar á nýjustu myndum fyrirtækisins, en hafa nú ákveðið að hverfa frá því banni.

Sú ákvörðun var tekin eftir að blaðamenn og kvikmyndagerðarmenn höfðu gagnrýnt þessa ákvörðun Disney harðlega. Nokkrir blaðamenn höfðu meðal gefið út að þeir myndu ekki fjalla um myndir Disney á meðan þetta bann væri við lýði.

Hollywood Reporter greinir frá þessu en þar kemur fram að Disney muni samt sem áður meina blaðamönnum L.A. Times aðgangi að skemmtigörðum fyrirtækisins sem stendur öðrum blaðamönnum til boða.

Fá tekjur af bílastæðahúsi sem borgin byggði

Fréttin sem reitti Disney til reiði var skrifuð af blaðamanninum Daniel Miller þar sem er fjallað um óánægju íbúi og borgarfulltrúa í Anaheim vegna eftirgjafar sem Disneyland-skemmtigarðurinn fær frá borginni.

Í fréttinni er sagt frá bílastæðahúsi við skemmtigarðinn sem státar af 10,241 bílastæði. Borgar þarf tuttugu dollara að lágmarki fyrir að leggja þar og eru tekjurnar af húsinu um 35 milljónir dollara á hverju ári. Þær tekjur renna beint til Disney. Anaheim-borg byggði þetta bílastæðahús, sem kostaði borgina um 108 milljónir dollara. Borgin leigir svo húsið til Disney fyrir einn dollar á ári.

Disney er eigandi Marvel, Pixar Studios og Lucasfillm, en það síðastnefnda gefur út Stjörnustríðsmyndirnar.Vísir/Getty
Afar valdamikið

Disney er orðið afar valdamikið í kvikmyndabransanum og státar jafnan að langtekjuhæstu myndum hvers árs. Disney hefur á sínum snærum Marvel, Lucasfilm og Pixar Studios en frá þeim koma vinsælustu ofurhetju- og teiknimyndir hverra ára og að sjálfsögðu Stjörnustríðsmyndirnar.

Áttunda Stjörnustríðsmyndin, The Last Jedi, verður frumsýnd fjórtánda desember næstkomandi en Disney hefur sett fram kröfu á hendur eigenda kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum að fyrirtækið fái 65 prósent af miðasölutekjum myndarinnar. Venjulega taka kvikmyndaver um 40 – 55 prósent af miðasölutekjunum.

Ef eigendur kvikmyndahúsanna ákveða að gangast við þeirri kröfu þurfa þeir einnig að skuldbinda sig til að halda The Last Jedi í stærstu kvikmyndasölum sínum í að minnsta kosti í fjórar vikur.

Þegar sjöunda Stjörnustríðsmyndin, The Force Awakens, var frumsýnd fyrir tveimur árum fór Disney fram á 64 prósent af miðasölutekjunum og að kvikmyndahúsin þyrftu að halda myndinni í að lágmarki í tvær vikur í stærstu sölum sínum.

Refsað ef þau rjúfa samkomulagið

Þau kvikmyndahús sem gangast við þessum skilyrðum um The Last Jedi geta átt yfir höfði sér refsingu ef þau gerast sek um að fara gegn þessu samkomulagi. Er refsingin fólgin í því að fimm prósent til viðbótar af miðasölutekjunum renna til Disney.

Þetta fyrirkomulag er ekki óþekkt en sagt koma illa við smærri kvikmyndahús og auka enn frekar á einsleitni þegar kemur að útgáfu stórmynda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×