Erlent

Setja glugga í hurðir á leikskólum eftir ofbeldismál

Atli Ísleifsson skrifar
Vonast er til að hægt verði að koma í veg fyrir að mál sem þessi endurtaki sig. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Vonast er til að hægt verði að koma í veg fyrir að mál sem þessi endurtaki sig. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Borgarstjórn Bergen í Noregi hefur ákveðið að leggja 3,2 milljónir norskra króna, um 42 milljónir króna, í að koma gluggum fyrir í 530 hurðum á alls 73 leikskólum í sveitarfélaginu.

Með þessu er vonast til að starfsfólk á leikskólum fái betri yfirsýn og geti betur komið í veg fyrir að ofbeldismál komi upp á leikskólum.

Málið komst á dagskrá eftir að dómstóll í Noregi dæmdi fyrrverandi starfsmann á leikskóla fyrir að hafa beitt sjö börn ofbeldi. Áttu árásirnar sér stað á leikskólanum, oft þar sem hann var einn í herbergi með barninu.

Þegar er búið að koma fyrir gluggum í nokkrum hurðum en í samtali við NRK segja starfsmenn leikskóla aðgerðina ekki tryggja að sambærileg atvik komi aftur upp. Nauðsynlegt sé í að starfsmenn séu eftirtektarsamir og að hurðir séu opnar upp á gátt þegar það er hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×