Erlent

Ráðist á bandarískan þingmann við heimili hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki er vitað um tilefni árásarinnar á Rand Paul.
Ekki er vitað um tilefni árásarinnar á Rand Paul. Vísir/AFP
Nágranni bandaríska þingmannsins Rands Paul hefur verið handtekinn eftir að hann réðist á repúblikanann við heimili hans í Kentucky-ríki í gær. Paul er sagður lítillega lemstraður eftir árásina en nágranninn er sakaður um að hafa tæklað hann aftan frá.

Samkvæmt handtökuskipuninni játaði nágranninn, sem er tæplega sextugur, að hafa farið inn á lóð Paul í Bowling Green og að hafa tæklað hann á föstudag. Ekki liggur hins vegar fyrir hver ástæða árásarinnar var, að því er segir í frétt Politico.

Talsmaður Paul segir að árásin hafi öldungadeildarþingmanninum að óvörum en að allt í lagi sé með hann. Í handtökuskipuninni kemur hins vegar fram að Paul hafi átt erfitt með andardrátt eftir árásina sem gæti skýrst af meiðslum á rifbeini og að honum hafi blætt úr skurðum í kringum munninn.

Washington Post hefur eftir Robert Porter, vini Paul til margra ára, að hann hafi verið að vinna í garðinum með heyrnarhlíf þegar nágranninn réðst óvænt á hann. Þingmaðurinn hafi ekki orðið var við manninn fyrr en hann lét til skarar skríða. Þeir hafi ekki verið í miklum samskiptum í mörg ár og var Porter ekki kunnugt um að þeim hefði slegið saman áður.

Paul bauð sig fram í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar í fyrra en bar ekki árangur sem erfiði. Hann hefur undanfarið beitt sér gegn tilraunum flokksbræðra sinna til að afnema sjúkratryggingalögin sem kennd hafa verið við Barack Obama, fyrrverandi forseta. Hann hefur einnig varið stefnumál Donalds Trump, forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×