Innlent

Svisslendingar brjálaðir í íslenskt skyr

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Svisslendingar eru vitlausir í íslenskt skyr því þangað fara um 750 tonn af skyri á árinu, eða 4,5 milljónir dósir sem er 50% aukning á sölu frá síðasta ári.

Íslenskar mjólkurvörur er ekki bara vinsælar hér heima því þær njóta líka mikilla vinsælda í útlöndum eins og í Finnlandi, Bretlandi og Möltu svo einhver lönd séu nefnd. Til marks um þetta þá komu starfsmenn Mjólkursamsölunnar heim hlaðnir verðlaunum fyrir skyrið nýlega á matvælasýningu í Herning í Danmörku þar sem Ísey skyr með bökuðum eplum fékk heiðursverðlaun

„Það er alltaf meiri og meiri útflutningur og aðal vöxturinn hjá okkur í útflutningi núna er til Sviss sem liggur að vísu utan Evrópusambandsins, en þangað erum við að flytja töluvert magn af skyri. Svo erum við að flytja á Bretland Evrópusambandskvótann, en þar eigum við kvóta sem við flytjum inn á en annað þurfum við að framleiða úti í samstarfi við aðra aðila eins og í Danmörku og selja yfir á önnur svæði,“ segir Egill Sigurðsson, kúabóndi og formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar.

Af hverju eru Svisslendingar svona áhugasamir?

„Ég veit það ekki, ég held það sé bara að það er gróin menning þar fyrir góðum mjólkurvörum. Þeir eru með öflugan mjólkuriðnað og góðar vörur og skyrið virðist falla mjög vel að þeim.“

Egill segir bjart yfir kúabændum og mjólkuriðnaðnum enda mjólka íslensku kýrnar vel eftir gott sumar.

„Það er nóg mjólk eins og er og hún er kannski heldur mikil eins og er. Það hefur verið aðeins meira en í fyrra en ekkert sem horfir til neinna vandræða.“

Mjólkursamsalan mun sjálf selja um 6.500 tonn af skyri á erlendum mörkuðum á árinu eða um 38 milljón dósir. Samstarfsaðilar fyrirtækisins í Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum munu selja um 8.500 tonn á þessu ári eða um 51 milljón dósa af skyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×