Erlent

Þúsundir á vergangi af völdum mannskæðra monsúnrigninga á Indlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í Chennai hafa reynt að setja upp bráðabirgðastíflur til að stjórna vatnselgnum í borginni.
Íbúar í Chennai hafa reynt að setja upp bráðabirgðastíflur til að stjórna vatnselgnum í borginni. Vísir/AFP
Tólf manns hafa farist í miklum monsúnrigningum í indverska ríkinu Tamil Nadu síðustu vikuna. Þúsundir íbúa ríkisins hafa þurft að leyta í neyðarskýli vegna úrhellisins.

Áfram er spáð miklum skúrum um helgina og hefur skólum í Chennai, höfuðborg ríkisins í suðurhluta Indlands, verið lokað. Monsúntímabilið á að standa yfir þar til í byrjun desember.

Hámark monsúntímabilsins á sunnanverðu Indlandi er í lok sumarmonsúntímans í október og nóvember. Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar hófst tímabilið 27. október en 74% heildarúrkomu tímabilsins sem spáð var féll strax í fyrstu vikunni.

Þannig féllu um þrjátíu sentímetrar regns í Chennai síðustu þrjá dagana. Hundrað og fimmtíu manns fórust í borginni í úrhellisrigningum fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×