Erlent

Tíu ára stúlku með heilalömun sleppt úr haldi innflytjendayfirvalda

Kjartan Kjartansson skrifar
Landamæraverðir stöðvuðu stúlkuna þegar hún var í sjúkrabíl á leið í aðgerð fyrir tíu dögum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Landamæraverðir stöðvuðu stúlkuna þegar hún var í sjúkrabíl á leið í aðgerð fyrir tíu dögum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/AFP
Yfirvöld í Texas-ríki í Bandaríkjunum hafa sleppt mexíkóskri tíu ára gamalli stúlku með heilalömun sem kom ólöglega til landsins með móður sinni. Stúlkan var stöðvuð í sjúkrabíl á leið á sjúkrahús í síðasta mánuði.

Mál Rosu Maríu Hernández hefur vakið hneykslan í Bandaríkjunum. Landamæraverðir leyfðu sjúkrabíl hennar að halda áfram með hana í aðgerð á gallblöðru í lögreglufylgd. Vopnaðir verðir biðu eftir að hún vaknaði eftir aðgerðina og tóku hana þá höndum.

Stúlkunni var í kjölfarið haldið í miðstöð fyrir unga innflytjendur í San Antonio. Henni hefur nú verið sleppt til foreldra sinna en ekki er ljóst hvort að bandarísk yfirvöld ætli að vísa henni úr landi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Frændi stúlkunnar sem var með henni á leiðinni á sjúkrahúsið segir að landamæraverðir hafi beitt fjölskylduna þrýstingi til að láta hana skrifa upp á skjöl um að stúlkan yrði send á sjúkrahús í Mexíkó. Fjölskyldan hafnaði því hins vegar.

„Ég er móðir. Það eina sem ég vildi var að koma henni í aðgerðina sem hún þurfti á að halda,“ segir Felipa de la Cruz, móðir Rosu Maríu sem fór til Bandaríkjanna til að reyna að fá betri meðferð fyrir dóttur sína en hún átti kost á sunnan landamæranna.

Ríkisstjórn Donalds Trump forseta aðhyllist harðlínustefnu í málefnum fólk sem hefur komið ólöglega til Bandaríkjanna. Fyrir utan að tala fyrir að reisa vegg á landamærunum að Mexíkó hafa brottvísanir fólks færst í aukana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×