Erlent

Dæmdur til að hrósa fyrrverandi kærustu sinni 144 sinnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómarinn átti ekki orð yfir napuryrðum sem hann hafði látið falla í garð konunnar.
Dómarinn átti ekki orð yfir napuryrðum sem hann hafði látið falla í garð konunnar. Vísir/Getty
Þrítugur karlmaður frá Havaii-eyjum í Bandaríkjunum fékk heldur óvenjulegan dóm þegar hann var dæmdur til að senda fyrrverandi kærustu sinni 144 hrós. Fyrir hafði maðurinn, Daren Young, sett sig 144 sinnum í samband við fyrrverandi kærustu sína og sagt allt annað en vinsamlega hluti við hana.

Hann hafði áður verið dæmdur til að halda sig fjarri konunni og setja sig ekki í samband við hana.

Það var 22. maí síðastliðinn sem maðurinn missti algjörlega stjórn á skapi sínum og hafði 144 sinnum samband við fyrrverandi kærustu sína á einum og hálfum klukkutíma þann dag. Gerði hann það ýmist í gegnum símhringingar eða textaskilaboð.

Við réttarhald yfir manninum var ekki farið nákvæmlega yfir hvað maðurinn sagði við konuna, en það var þó það neikvætt og ömurlegt að dómarinn sá sig knúinn til að dæma manninn til að hrósa fyrrverandi kærustu sinni.

Hann hefur 144 daga til að hrósa henni 144 sinnum og má ekki endurtaka sama hrósið aftur og aftur.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða 2.400 dollara í sekt, eða því sem nemur um 250 þúsund íslenskra króna, og að sinna samfélagsþjónustu í 200 klukkutíma.

Young reyndi hvað hann gat að biðjast afsökunar á þessu athæfi og lofaði að gera þetta ekki aftur. Dómarinn átti hins vegar ekki orð yfir napuryrðum sem hann hafði látið falla í garð konunnar.

Maðurinn hafði fyrir þetta setið 157 daga í fangelsi fyrir að rjúfa nálgunarbann gegn konunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×