Erlent

Sjö ára stúlku tókst að komast um borð í flugvél án miða

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Genfarflugvelli.
Frá Genfarflugvelli. Vísir/Getty
Sjö ára stúlka, sem hljóp í burtu frá foreldrum sínum á aðallestarstöð Genfar í Sviss á sunnudag tókst að taka lestina til Genfarflugvallar, fara í gegnum öryggisleit og um borð í flugvél þrátt fyrir að vera án farmiða.

Í frétt Reuters kemur fram að foreldrarnir hafi tilkynnt lögreglu að stúlkan hafi hlaupist á brott og tókst lögreglu að fylgja slóð hennar með aðstöð öryggismyndavéla.

Að sögn upplýsingafulltrúa flugvallarins, Bernard Stampfli, sagðist stúlkan vera á ferð með fullorðnum sem stóðu nálægt sér þegar hún fór í gegnum öryggisleitina og svo tókst henni að „nýta smæð sína“ til að svindla sér um borð í flugvél á leið til frönsku eyjarinnar Korsíku í Miðjarðarhafi.

Áhöfn vélarinnar tók þó eftir að maðkur væri í mysunni þar sem stúlkan virtist ekki vera í fylgd neins af hinum farþegunum og gerði því lögreglu viðvart.

Stampfli segir stúlkuna hafa beitt brögðum til að gabba starfsfólk flugvallarins og þá hafi hún einnig verið sérstaklega þrjósk, þar sem hún gerði ítrekaðar tilraunir til að komast um borð í flugvélina eftir að þær fyrstu mistókust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×