Erlent

Íbúar óttast ástandið á Norðurbrú

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það hefur mikil spenna verið á Norðurbrú og svæðinu þar í kring undanfarna mánuði.
Það hefur mikil spenna verið á Norðurbrú og svæðinu þar í kring undanfarna mánuði. Vísir/EPA
Skotárás var gerð á Norður­brú í Kaupmannahöfn um klukkan sjö að staðartíma í fyrrakvöld. Þrír menn voru skotnir, einn lét lífið en tveir særðust. Hinn látni var 30 ára gamall og var meðvitundar­laus þegar lögreglan og sjúkralið kom á vettvang. Hann var úrskurðaður látinn þegar sjúkrabíllinn kom á spítalann.

Fjölmargar skotárásir hafa verið gerðar undanfarið á Norðurbrú og þar í kring. Jyllands Posten segir þessar árásir tengjast átökum milli gengja sem hafa staðið yfir í rúmt hálft ár. Torben Svarrer, hjá dönsku lögreglunni, segir að hinn látni hafi verið úr glæpagengi.

Íbúar á Norðurbrú óttast að skotárásirnar fari versnandi. „Nú skjóta þeir til að drepa. Fyrr á árinu virtist þetta vera meira til að hræða eða að þeir skutu eitthvað handahófskennt og fóru svo í burtu,“ segir Terje Bech.

Svarrer telur hins vegar ekki að átökin séu að aukast. „Það hafa verið rólegir tímar og svo síðar tímar þar sem skotárásirnar hefjast aftur. Það er því vafasamt að vera að segja að spennan sé að aukast,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×