Erlent

Varnarmálaráðherra Breta segir af sér vegna „óviðeigandi hegðunar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands Vísir/Getty
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands hefur sagt af sér embætti. Í yfirlýsingu frá honum segir hann að hegðun hans í fortíðinin hafi verið óviðeigandi.

Fyrr í vikunni baðst hann afsökunar á því að hafa sett hönd sína á hné blaðakonu án hennar leyfis, fyrir 15 árum síðan.

Greint hefur verið frá kynferðislegu áreiti í breskum stjórnmálum undanfarna daga. Búist er við að Theresa May, forsætisráðherra, leggi fram aðgerðir í samstarfi við forseta þingsins um að bæta menningu á bresku þinginu og að koma á fót formlegu verkferli til að fjalla um kvartanir hjá þingmönnum og starfsliði þeirra.

Í yfirlýsingu Fallons vísar hann í þessa fjölmiðlaumfjöllun. Þar segir hann að margir þingmenn, þar á meðal hann sjálfur, hafi verið ásakaðir um óviðeigandi hegðun eða kynferðislega áreitni á undanförnum dögum.

„Margar ásakanirnar eiga sér enga stoð í raunveruleikanum en ég geri mér grein fyrir því að hegðun mín hefur ekki verið samkvæmt þeim viðmiðum sem við ætlum að hermenn okkar fari eftir og ég hef þann heiður að vera fulltrúi fyrir,“ segir í yfirlýsingunni.

Í ljósi þess hafi hann ákveðið að segja af sér embætti. Í fréttum BBC og Guardian af málinu segir að ekki sé víst hvort að afsögnin tengist máli blaðakonunnar eða öðru máli.

Fallon hefur gegnt embætti varnarmálaráðherra Bretlands í þrjú og hálft ár en hann tók við embætti árið 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×