Cristiano Ronaldo spilar sem kunnugt er í treyju númer sjö, bæði hjá Real Madrid og portúgalska landsliðinu. Hann vill líka eignast sjö börn og vinna sjö Gullbolta.
Ronaldo þykir líklegastur til að vinna Gullboltann í næsta mánuði. Hann hefur fjórum sinnum unnið hann áður, síðast í fyrra.
Ronaldo varð líka pabbi í fjórða sinn í vikunni þegar Georgina Rodríguez ól honum dóttur.
„Ég vil eignast sjö börn og jafn marga Gullbolta. Meðan ég spila hef ég metnað til að vinna allt,“ sagði Ronaldo í samtali við L'Equipe.
Ronaldo hefur farið rólega af stað í spænsku úrvalsdeildinni og er aðeins kominn með eitt mark þar.
Hann fær tækifæri til að bæta úr því þegar Real Madrid mætir Atlético Madrid í borgarslag á morgun.
