Erlent

Tengdasonurinn lagði ekki öll spilin á borðið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jared Kushner með tengdaföður sínum, Bandaríkjaforsetanum Donald Trump.
Jared Kushner með tengdaföður sínum, Bandaríkjaforsetanum Donald Trump. VÍSIR/EPA
Einn helsti ráðgjafi Bandaríkjaforesta, sem jafnframt er tengdasonur hans, annað hvort gleymdi eða hélt vísvitandi eftir tölvupóstum um Wikileaks og póstum þar sem rætt var um leynilega samskiptaleið við Rússa.

Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum öldungardeildarþingmanna sem hafa farið fram á frekar upplýsingar frá ráðgjafanum, Jared Kushner. Rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings kannar nú öll möguleg tengsl kosningaliðs Donalds Trump við Rússa og hvort þeir síðarnefndu hafi beitt sér ólöglega í kosningunum vestanhafs í fyrra.

Þingmennirnir tveir, repúblikani og demókrati, segjast hafa sannanir fyrir þessum gögnum eftir samtöl við önnur vitni sem rannsóknarnefndin hefur rætt við á síðustu misserum. Kushner var beðinn um að afhenda tölvupóstana í október en svo virðist sem einhver misbrestur hafi orðið þar á.

Sjá einnig: Tengdasonur Trump sagður miðpunktur rannsóknar FBI

Lögfræðingur Kushner segir hann reiðubúinn að leggja öll spilin á borðið og veita allar þær upplýsingar sem nefndin krefst.

„Við erum þakklát fyrir það hvað þú hefur verið samvinnuþýður en svo virðist sem afhendingin hafi ekki verið fullnægjandi,“ segir í bréf sem þingmennirnir sendu lögmanni Kushner í gær. Hann heldur því fram að öll skjöl sem tengjast samskiptum Kushner við Rússa í kosningabaráttunni eða eftir embættistökuna; sama hvort það voru símtöl, fundir eða önnur sambönd, hafi verið lögð fram.

Þingmennirnir segja hins vegar að Kushner hafi áframsent tölvupósta um afhjúpunarsamtökin Wikileaks, ásamt gögnum sem lúta að leynilegri samskiptalínu við Rússa og ótilgreint kvöldverðarboð, á aðra meðlimi kosningaliðsins sem unnu að kjöri Donalds Trump á síðasta ári. Sannanir séu fyrir því að slík gögn séu til því að önnur vitni sem rannsóknarnefndin hefur rætt við hafi lagt fram skjöl þar sem nafn Kushner er að finna.

Lögmaður Kushner hefur til 27. nóvember til að verða við beiðninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×