Erlent

Theresa May orðin völt í sessi

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May tók við formennsku í Íhaldsflokknum af David Cameron árið 2016.
Theresa May tók við formennsku í Íhaldsflokknum af David Cameron árið 2016. Vísir/afp
Fjörutíu þingmenn breska Íhaldsflokksins hafa nú lýst því yfir að þeir hafi misst tiltrú á að Theresa May sé rétta manneskjan til að leiða flokkinn og landið. Ákveði átta þingmenn til viðbótar að gera slíkt hið sama kann það að leiða til formlegrar atkvæðagreiðslu um stöðu May í stóli formanns flokksins. Alls eru þingmenn Íhaldsflokksins 315 talsins. Sky greinir frá.

Tveir ráðherrar í bresku ríkisstjórninni hafa sagt af sér á síðustu dögum; varnarmálaráðherrann Michael Fallon vegna ásakana um kynferðislega áreitni og þróunarmálaráðherrann Priti Patel vegna leynifunda hennar með fulltrúum ísraelskra stjórnvalda.

Staða May innan flokksins hefur veikst eftir að Íhaldsflokknum mistókst að styrkja stöðu sína í þingkosningunum í sumar. Þá hafa Brexit-viðræður við Evrópusambandið gengið hægt.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur sömuleiðis talsvert verið í umræðunni eftir að hann tjáði sig óvarlega um stöðu bresk-íranskrar konu sem nú situr í fangelsi í Íran. Auk þess stendur rannsókn yfir vegna ásakana á hendur aðstoðarforsærisráðherranum Damian Green um kynferðislega áreitni.

Komi til atkvæðagreiðslu um formennsku May og verði hún undir, mun nýr maður taka bæði við formennskunni í flokknum og embætti forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×