Erlent

Dómur yfir „Kundby-stúlkunni“ þyngdur í átta ár

Atli Ísleifsson skrifar
Konan er fyrsta danska konan sem sakfelld er fyrir hryðjuverkabrot. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Konan er fyrsta danska konan sem sakfelld er fyrir hryðjuverkabrot. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Eystri landsréttur í Danmörku þyngdi í dag dóm yfir sautján ára stúlku sem hún hafði fengið fyrir hryðjuverkabrot. Dómurinn var þyngdur um tvö ár, úr sex í átta ára fangelsi. DR greinir frá.

Stúlkan hafði ætlað sér að gera sprengjuárásir í tveimur skólum á Kaupmannahafnarsvæðinu árið 2015 þegar hún var aðeins fimmtán ára að aldri.

Skólanir sem um ræðir voru annars vegar Sydskolen í Fårevejle, þar sem hún stundaði sjálf nám, og svo Carolineskolen í Kaupmannahöfn sem ætlaður er gyðingum.

Stúlkan var handtekin í bænum Kundby á Sjálandi, um áttatíu kílómetrum vestur af Kaupmannahöfn, í janúar á síðasta ári. Þar fundust leiðbeiningar um sprengjugerð og önnur gögn þar sem orðið „jihad“ kom ítrekað fyrir. Þá hafði hún verið í sambandi við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS á samfélagsmiðlum.

Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku á síðustu mánuðum. Hún er fyrsta danska konan sem sakfelld er fyrir hryðjuverkabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×