Enski boltinn

Klopp gefur lítið fyrir kvartanir Conte

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, skaut létt á kollega sinn Antonio Conte, stjóra Chelsea, en þeir munu leiða saman hesta sína á Anfield síðar í dag.

Conte hefur kvartað yfir leikjaálagi Chelsea en liðið var í Aserbaijan síðastliðinn miðvikudag þar sem liðið tryggði sér þátttökurétt í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 

Í kjölfarið tekur við þriggja leikja vika hjá Chelsea eins og öðrum liðum ensku úrvalsdeildarinnar þar sem heil umferð fer fram í miðri viku. Klopp segir Conte ekki geta kvartað og gefur raunar í skyn að Chelsea fái betri meðferð en önnur lið þegar kemur að leikjadagskrá.

„Ég skil hvað Antonio er að tala um en hann er kannski að gleyma því að þeir fengu bestu jóladagskrána í fyrra.“

„Þá spiluðu allir á tveggja daga fresti á meðan þeir höfðu 12 daga til að spila þrjá leiki. Það er eins í ár og ég veit ekki hvernig enska úrvalsdeildin útskýrir þetta,“ segir Klopp.

Liverpool fær Chelsea í heimsókn í síðasta leik dagsins í enska boltanum og Klopp býst ekki við þreyttum bláliðum.

„Leikjaálagið mun ekki hafa áhrif á þá í dag en mögulega í næsta leik. Þeir eru komnir til baka, þeir flugu til London og hafa haft tvo daga til að hvíla sig. Það eru eðlilegar aðstæður,“ segir Klopp.

Leikur Liverpool og Chelsea verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 17:20.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×