Sport

Frír bjór þar til Packers skorar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stuðningsmenn Packers kunna að meta ískaldan bjór.
Stuðningsmenn Packers kunna að meta ískaldan bjór. vísir/getty
Fólkið í Wisconsin elskar sitt lið, Green Bay Packers, og einn bareigandi fór illa út úr því um nýliðna helgi.

Til þess að lokka fólk á barinn sinn hefur hann boðið upp á frían bjór yfir leikjum Packers þar til liðið skorar. Það er venjulega ekki boðið upp á frían bjór lengi á meðan Aaron Rodgers spilar með liðinu en þar sem hann er meiddur er þetta orðið vandamál.

Brett Hundley er nefnilega enginn Rodgers og með hann í leikstjórnandastöðunni tapaði Green Bay 23-0 gegn Baltimore. Allir á barnum drukku þar af leiðandi frítt allan leikinn.

Um 300 fríir bjórar fóru ofan í gesti á barnum og veitti líklega ekki af að drekkja sorgum stuðningsmanna Packers yfir þessum leik sem liðið bauð upp á.

„Fólk kom í síðari hálfleik og eiginlega baðst afsökunar á því að fá sér frían bjór. Það vildi virkilega að Packers skoraði í leiknum,“ sagði bareigandinn merkilega jákvæður með tap helgarinnar en hann ætlar að vera tilbúinn öðrum lélegum leik um næstu helgi enda stendur tilboðið allar helgar hjá honum.

„Það er ljóst að við verðum að eiga mikinn bjór á lager ef þetta skildi nú gerast aftur.“

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×