Innlent

Gullleiðangursmenn hafa sveimað yfir flaki Minden frá því á mánudag

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hin meinta fjársjóðskista í Minden var mynduð úr fjarstýrðum kafbát í apríl á þessu ári.
Hin meinta fjársjóðskista í Minden var mynduð úr fjarstýrðum kafbát í apríl á þessu ári.
Leitarskip á vegum breska fyrirtækisins Advanced Marine Services hefur frá því á mánudag að minnsta kosti verið á þeim stað þar sem flak þýska flutningaskipsins SS Minden er að finna á hafsbotni um 120 sjómílur suðsuðaustur af Ingólfshöfða.

Samkvæmt starfsleyfi ber AMS að upplýsa Umhverfisstofnun um það sem tekið verður úr Minden. Einnig á AMS að tilkynna Landhelgisgæslunni um ferðir sínar. Fyrirtækið hefur þrjá sólarhringa til að ljúka verkinu sem unnið er með fjarstýrðum kafbáti.

„Að svo stöddu er óvíst hvort við fylgjumst með aðgerðinni nánar en kveðið er á um í starfsleyfinu,“ svarar Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, aðspurður hvort stofnunin hafi tök á að fylgjast með aðgerðinni.

Eins og fram hefur komið telja leitarmenn að gull kunni að leynast í skáp í Minden. Skápurinn verði fluttur til Bretlands þar sem viðeigandi stofnun muni skera úr um innihaldið og eignarhaldið. Þýska skipafélagið Hapaq-Lloyd gerir tilkall til Minden og þess sem í skipinu kann að leynast. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×