Erlent

Hafa gefið upp alla von um að finna áhöfn kafbátsins á lífi

Birgir Olgeirsson skrifar
Á myndinni má sjá kafbátinn ARA San Juan sem leitað hefur verið að.
Á myndinni má sjá kafbátinn ARA San Juan sem leitað hefur verið að. Vísir/EPA
Argentínski sjóherinn hefur gefið upp alla von um að geta bjargað áhöfn kafbátsins sem hvarf fyrir tveimur vikum.

„Þrátt fyrir mikla viðleitni hefur ekki verið mögulegt að staðsetja kafbátinn,“ hefur fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC eftir talsmanni argentínska sjóhersins, Enrique Balbi.

Síðast spurðist til kafbátsins ARA San Juan miðvikudaginn 15. nóvember. Þá tilkynnti áhöfn hans um rafmagnsbilun í hefðbundnum leiðangri nærri syðsta odda Suður-Ameríku. Áhöfninni var skipað að stefna strax á flotastöðina í Mar del Plata. Þangað skilaði kafbáturinn sér hins vegar aldrei.

Vonir um að finna einhverja á lífi úr áhöfninni dvínuðu þegar fregnir bárust af sprengingu skömmu áður en kafbáturinn hvarf.

Balbi sagði við fjölmiðlamenn í dag að í raun hefði sjóherinn haldið í vonina um að finna einhvern á lífi mun lengur en venju sætir.

Leit að kafbátnum á sjávarbotni stendur þó enn yfir.

Þegar Balbi ræddi við fjölmiðlamenn síðastliðinn þriðjudag sagði hann vatn hafa komist í loftpípu kafbátsins, en notast er við slíkar pípur til að taka loft inn í kafbáta þegar þeir eru á kafi.

Það varð til þess að sjór lak á geymistrog í stefni bátsins sem olli skammhlaupi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×