Innlent

Bjóða rjúpur til sölu á bland.is

Baldur Guðmundsson skrifar
Framboð á rjúpum annar ekki alltaf eftirspurn, enda er um brögðótta bráð að ræða. Hér eru rjúpur í makindum í Kjarnaskógi, fyrir nokkrum árum.
Framboð á rjúpum annar ekki alltaf eftirspurn, enda er um brögðótta bráð að ræða. Hér eru rjúpur í makindum í Kjarnaskógi, fyrir nokkrum árum. vísir/kristján
Í það minnsta tvær auglýsingar þar sem gefið er til kynna að rjúpur séu til sölu er að finna á söluvefnum bland.is. Bannað er að selja rjúpur eða rjúpnaafurðir en veiðitímabilinu þetta árið lauk í nóvember. Annar notandinn auglýsir að rjúpur „vanti heimili“ en nánari upplýsingar fáist í einkaskilaboðum. Hinn auglýsir rjúpur til sölu með beinum hætti: „Vegna breyttra fyrirætlana um jólin eru tíu stykki rjúpur sem ég nýlega fjárfesti í til sölu,“ skrifar hann og óskar eftir tilboðum í fuglana.

Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, segir að stofnuninni hafi fram að þessu ekki borist neinar ábendingar af þessum toga þetta haustið. „Við höfum fyrri ár stundum fengið ábendingar og höfum þá vísað þeim málum til lögreglu, því það er hennar að framfylgja því að sölubannið sé virt. Við erum fyrst nú að sjá vegna ábendingar þinnar tengla á bland.is þar sem grunur kviknar um brot,“ segir hann.

Hann segir að fyrir virðist liggja að að minnsta kosti annar aðilinn hyggist bjóða upp á ólögleg viðskipti, þar sem tilboða sé óskað. „Alltaf þegar við fáum svona ábendingar bregðumst við við með því að senda málin til lögreglu og það verður gert í þessu tilviki,“ segir Björn.

Indriði Ragnar Grétarsson, formaður SKOTVÍS, segir að félaginu hafi ekki borist ábendingar um tilraunir til sölu á rjúpum í haust. Slík viðleitni hefur heldur ekki borist til eyrna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×