Innlent

„Rútan ætti ekki að fara af stað fyrr en allir eru komnir í belti“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölmargir unnu að björguninni í gær.
Fjölmargir unnu að björguninni í gær. VÍSIR/VILHELM
Guðmundur Vignir Steinsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri á Kirkjubæjarklaustri, furðar sig á því að ekki sé gengið úr skugga um að farþegar í hópferðarbifreiðum noti bílbelti. Ætla mætti að farþegar rútunnar sem hafnaði aftan á fólksbifreið á Suðurlandsvegi í gær hefðu ekki slasast jafn alvarlega og raun bar vitni hefðu þeir verið spenntir ofan í sætin.

„Það sannar sig enn og aftur að bílbeltin geta komið í veg fyrir stórslys,“ segir Guðmundur sem var meðal fyrstu manna á vettvang í gær. Fram hefur komið í fréttaflutningi af slysinu að farþegar hafi kastast til og tveir þeirra lent undir rútunni er hún valt á hliðina. Ljóst er af því, sem og aðkomunni að vettvangi, að sætisbeltanotkun hefur verið verulega ábótavant.

Sjá einnig: Slysið undirstriki nýjan vanda ferðaþjónustunnar

Guðmundur segist ekki skilja hvers vegna farþegar í hópbifreiðum þurfi ekki að nota sætisbelti frekar en þeir vilja - og setur það í samhengi við flugsamgöngur. „Þú ferð ekkert í loftið nema að vera spenntur. Af hverju er það ekki bara eins þegar þú ferð í rútu? Rútan ætti ekki að fara af stað fyrr en allir eru komnir í belti,“ segir Guðmundur.

„Þetta er mjög skrítið. Maður hugsar þetta oft þegar maður er að senda börnin sín með strætisvagni að það megi standa í strætisvögnum á þjóðvegunum,“ bætir Guðmundur við. „Það er eiginlega alveg furðulegt að það skuli vera næstum komið árið 2018 og beltanotkun í rútum sé ekki almennari en við þekkjum.“

Guðmundur segir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem ferðist um Suðausturland á þessum árstíma séu erlendir ferðamenn sem oftar en ekki geri sér enga grein fyrir aðstæðum. Sé því rétt að brýna fyrir öllum sem ferðist um þjóðvegi landsins að huga að aðstæðum og öryggismálum.

Rætt var við Fanney Ólöfu Lárusdóttir, sauðfjárbónda og ráðunaut, í Bítinu í morgun en hún þekkir vel aðstæðurnar á Suðurlandi. Spjallið má heyra hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×