Erlent

Þurfti óvænt að lenda vélinni eftir að kona komst að framhjáhaldi eiginmannsins í miðju flugi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vélin var á leið frá Doha í Katar til Balí.
Vélin var á leið frá Doha í Katar til Balí. vísir/getty
Flugvél Qatar Airways þurfti óvænt að lenda í Indlandi á leið frá Doha í Katar til Balí eftir að kona komst að því í miðju flugi að eiginmaður hennar hefði haldið framhjá henni.

Konan náði að opna síma mannsins á meðan hann svaf með því að taka í hönd hans og opna símann með þumalputta mannsins. Í símanum voru svo upplýsingar um framhjáhaldið.

Fjallað er um málið á vef Guardian en þar segir að hjónin hafi verið á leiðinni til Balí í frí ásamt barni sínu. Konan á að hafa lamið mann sinn eftir að hún komst að framhjáhaldinu og sá flugstjórinn sig knúinn til að lenda í Chennai í Indlandi þar sem áhöfn vélarinnar gat ekki róað konuna.

Konan og maðurinn ásamt barni sínu voru ekki með vegabréfsáritun til Indlands en var engu að síður vísað frá borði og hélt vél Qatar Airways áfram áleiðis til Balí.

Fjölskyldan eyddi deginum á flugvellinum í Chennai en fór svo um kvöldið til Malasíu með Batik Air. Qatar Airways hefur ekki viljað tjá sig um atvikið og ber við trúnaði við viðskiptavini sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×