Erlent

Hvar er klukkan?

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sérfræðingar segja augljóst að átt hafi verið við hægri myndina, þá sem afgönsk stjórnvöld sendu frá sér.
Sérfræðingar segja augljóst að átt hafi verið við hægri myndina, þá sem afgönsk stjórnvöld sendu frá sér.
Svo virðist sem átt hafi verið við mynd af fundi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forseta Afganistan. Telja fjölmiðlar ytra að það hafi verið gert til að gefa í skyn að fundur þeirra hafi farið fram í Kabúl, höfuðborg Afganistan, en ekki í bandarískri herstöð í órafjarlægð.

Myndirnar, sem sjá má hér að ofan, sýna Rex Tillerson og Ashraf Ghani ræðast við í gluggalausu herbergi með sjónvarpsskjá í baksýn. Önnur myndin sýnir þó glögglega klukku og rauða brunabjöllu en á hinni er ekkert slíkt sjáanlegt.

Myndin þar sem búið var að fjarlægja klukkuna og bjölluna fylgdi með fréttatilkynningu afganskra stjórnvalda þar sem fram kom að forsetinn „hafi tekið á móti“ utanríkisráðherranum í Kabúl. Undir það tóku yfirvöld í Washington en tístu mynd af fundinum þar sem glögglega mátti sjá hlutina á veggnum fyrir ofan embættismennina.

Þessari mynd tísti bandaríska utanríkisráðuneytið. Klukkan og bjallan sjást vel fyrir miðri mynd.
Þessi mynd fylgdi hins vegar tilkynningu frá afgönskum stjórnvöldum. Hvar eru klukkan og bjallan?
Þegar upp komst um misræmið á milli myndanna sendu Bandaríkjamenn frá sér leiðréttingu þar sem það var viðurkennt að fundurinn hafi í raun átt sér stað í Bagram, stærstu herstöð Bandaríkjahers í Afganistan. Hvorki Afganir né Bandaríkjamenn hafa útskýrt af hverju ákveðið var að eiga „augljóslega“ við myndina - eins og sérfræðingur New York Times kemst að orði.

Mikil leynd hefur þó hvílt yfir ferðum Tillersons eftir að loftskeytum var skotið að sendinefnd hans á alþjóðaflugvellinum í Kabúl. Því má ætla að klukkan og bjallan, sem sögð eru lýsandi fyrir herstöðvar Bandaríkjamanna, hafi verið fjarlægð af myndinni til að villa um fyrir mögulegum árásarmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×