Innlent

Lifrarbólgu A faraldur í Evrópu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Íslendingar hafa löngum státað af einu öflugasta velferðarkerfi heims.
Íslendingar hafa löngum státað af einu öflugasta velferðarkerfi heims. vísir/vilhelm
Lifrarbólgu A faraldur geisar nú í Evrópu og hvetur sóttvarnalæknir þá sem ferðast mikið til þess að láta bólusetja sig – sérstaklega samkynhneigða karlmenn. Ekki hefur sést aukning á sjúkdómnum hér á landi það sem af er þessu ári.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) vekur athygli á faraldrinum, en frá því í júní á síðasta ári hafa um 1.500 einstaklingar í 16 löndum Evrópu greinst með lifrarbólgu A. Þá eru tæplega 3.000 manns til viðbótar taldir vera sýktir og líklega mikill fjöldi sem ekki hefur leitað sér aðstoðar. Langflestir þessara einstaklinga eru karlmenn sem stundað hafa kynlíf með karlmönnum.

Fram kemur á vef landlæknis að lifrarbólga A sé yfirleitt hættulítill sjúkdómur sem lagist án meðferðar en geti í stöku tilfellum valdið alvarlegum lifrarskemmdum. Á Íslandi greinast færri en fimm einstaklingar árlega með lifrarbólgu A.

Sjúkdómurinn smitast um munn með saurmenguðum mat eða vökva og engin meðferð er til við honum. Besta fyrirbyggjandi meðferðin er með bólusetningu auk þess að gæta að almennu hreinlæti við inntöku matar og vökva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×