Innlent

Björt segir sátt geta verið um rammaáætlun

Heimir Már Pétursson skrifar
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra. Vísir/Vilhelm
Umhverfisráðherra segir farið í einu og öllu eftir tillögum verkefnisstjórnar um mat á virkjanakostum í rammaáætlun sem kemur til fyrstu umræðu á Alþingi í dag. Samkvæmt henni bætast við sjö vatnsafls virkjanakostir og tíu virkjanakostir á háhitasvæðum, sem samanlagt gefa um 1.400 megavött.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra mælir í dag í fyrsta skipti fyrir rammaáætlun, eða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða á Alþingi. Í áætluninni er gert ráð fyrir sjö nýjum vatnsaflsvirkjunum, þar af fjórum á Suðurlandi, tveimur á Vestfjörðum og einni á Norðurlandi.

Á Suðurlandi eru það Skrokkalda ásamt þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár, á Vestfjörðum eru það Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun og á Norðurlandi er um að ræða viðbót við Blönduvirkjun.

Þá er gert ráð fyrir tíu virkjanakostum á háhitasvæðum. Langflest eru á Reykjanesi eða átta en tvö háhitasvæði á Norðausturlandi fara einnig í nýtingarflokk.

Á Reykjanesi fara í nýtingarflokk samkvæmt frumvarpinu þrjár virkjanir á Hengilsvæðinu; Hverahlíð II, Þverárdalur og Meitillinn. Þá fer Stóra Sandvík í virkjanakost ásamt Eldvörpum í Svartsengi og þremur stöðum á Krísuvíkursvæðinu, það er á Sandfelli, Sveifluhálsi og Austurengjum. Á Norðausturlandi fara háhitasvæði á Námafelli og við Kröflu í nýtingarflokk.

Einnig er gert ráð fyrir frekari virkjun vindorku í Blöndulundi á Norðurlandi.

Tuttugu og þrír vatnsaflskostir fara í biðflokk ásamt fjórtán kostum á háhitasvæðum og einu vindorkusvæði. Átján vatnsaflsvirkjanakostir og átta háhitasvæði fara í verndarflokk.

Umhverfisráðherra segir þessar tillögur byggja á óbreyttum tillögum verkefnisstjórnar eins og hjá fyrrverandi umhverfisráðherra og fela í sér sátt.

„Þetta er faglega unnin rammaáætlun af fagaðilum sem við höfum treyst til verksins. Mér finnst niðurstaða þeirra góð. Þótt það sé auðvitað þannig að allir verði að gefa eitthvað eftir af sínum áherslum. Það er alveg þannig að ég hefði viljað sjá einhverja ákveðna kosti í vernd frekar en hitt,“ segir Björt.

En gagnrýni stjórnarandstöðunnar á rammaáætlun í tíð síðustu ríkisstjórnar var aðallega sú að ekki væri farið eftir tillögum verkefnisstjórnar eins og ráðherra segir að nú sé gert.

Björt segir að samanlögð orka þeirra virkjanakosta sem nú fari í nýtingarflokk sé um 1.400 megavött sem ætti að svara þörf orkufyrirtækjanna.

„Í öðrum áfanga rammaáætlunar sem þegar er í gildi er enn óvirkjað afl. Svo bætist þarna við úr niðurstöðu verkefnisstjórnar fyrir þriðja áfanga. Þannig að nú er töluvert mikið afl sem enn er óvirkjað, ef þetta þarf að fara í umhverfismat og allt það. En það eru þarna kostir sem hægt er að fara í ef menn kjósa svo,“ segir Björt Ólafsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×